„Við fengum ábendingu um að þau hefðu verið þarna, nálægt þessu húsi, um fimmleytið. Svo náðum við tali af þeim í gær en það er ekkert sem varpar ljósi á þennan bruna sem þar kom fram,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, í samtali við mbl.is um fjögur ungmenni sem lögregla tilkynnti um á Facebook-síðu sinni að hún vildi gjarnan ná tali af í kjölfar brunans í Drafnarslippnum gamla í Hafnarfirði að kvöldi 1. maí.
Skúli segir tæknideild hafa lokið störfum á vettvangi og nú sé beðið upplýsinga frá Mannvirkjastofnun um rafmagnsmál. „Þó hefur komið fram að það var ekki rafmagn á skemmunni sjálfri og ef svo hefur ekki verið hefur líklega verið um einhvers konar opinn eld að ræða,“ segir Skúli en hvernig slíkt hefði til komið væri ekki vitað eins og staðan er nú.