Tilbúinn er og öllum fær akvegur sem liggur að Brúarfossi í Brúará í Bláskógabyggð.
Staðurinn hefur verið afar fjölsóttur á síðustu árum og þar höfðu mikil áhrif myndir af fossinum sem birtust á ferðamannavefnum Tripadvisor. Þar var fegurð staðarins rómuð svo fólk fór í stórum stíl að leggja leið sína þangað.
Brúará er því sem næst miðja vegu milli Laugarvatns og Geysis og þegar farið er að fossinum er bílum lagt á stæði rétt austan við brúna yfir ána og þaðan svo gengið inn til landsins um fjóra kílómetra.
Nú hefur verið útbúinn vegur vestan ár, um það bil þriggja kílómetra löng braut og fyrir enda hennar, skammt frá fossinum, var útbúið bílastæði.
Vegagerð þessi er framtak landeigenda á þessum slóðum. Þarna er óbyggð jörð, Hlauptunga, og um vegagerðina og annað sem henni fylgdi stofnuðu eigendur jarðarinnar, Jóna Bryndís Gestsdóttir og synir hennar, Gestur, Rúnar og Arnar Gunnarssynir, fyrirtækið 3 fossar ehf. Rúnar hefur verið í aðalhlutverki í verkefni þessu, en hann starfar sem verktaki og býr á bænum Efri-Reykjum sem er á þessum slóðum og á land að Brúarfossi.
„Vegurinn skapar ýmsa möguleika á að byggja megi upp ýmsa þjónustu við fossinn í framtíðinni. Þetta var aðkallandi verkefni,“ segir Rúnar.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.