Líklegra er að jarðskjálftahrinan í Mýrdalsjökli í morgun tengist jarðhitavirkni og mögulegri vatnssöfnun í kötlum heldur en eldvirkni. Hægst hefur á skjálftavirkni en hún er þó enn til staðar með smærri skjálftum sem koma nokkuð títt.
Þetta segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, spurð út í stöðu mála.
Yfir 30 skjálftar hafa orðið síðan hrinan hófst á tíunda tímanum í morgun, þar af þrír yfir 4 að stærð og um sjö á milli 3 og 4 að stærð.
„Það hefur aðeins hægst á þessu eftir morguninn en það er enn þá skjálftavirkni og við fylgjumst vel með stöðunni,” segir hún og bætir við að ekkert hafi mælst í ám sem bendi til þess að ástandið hafi breyst. Rafleiðni í Múlakvísl er til að mynda ekki að aukast.
Veðurstofan hefur verið í sambandi við almannavarnir, lögregluna á svæðinu og fleiri um viðbrögð og við hverju megi búast ef dregur til tíðinda.
„Við erum að vakta öll kerfin sem við höfum,” segir Salóme Jórunn, spurð út í mögulegt hlaup.
Veðurstofan hefur ekki óskað eftir flugvél frá Landhelgisgæslunni til að fljúga yfir svæðið. Starfsmenn Veðurstofunnar hafa aftur á móti verið sendir til að reyna að setja upp annan gasmæli á Sólheimaheiði.