Ógnaði öryggisverði Nova með hníf

Árásin átti sér stað á bílastæði Nova í Ármúla.
Árásin átti sér stað á bílastæði Nova í Ármúla. mbl.is/Ómar Óskarsson

Maður ógnaði öryggisverði Nova á bílastæði verslunarinnar í Lágmúla í Reykjavík í dag. Maðurinn var vopnaður hnífi en að sögn Þuríðar Bjargar Guðnadóttur, framkvæmdastjóra sölu og þjónustu hjá Nova, slapp öryggisvörðurinn ómeiddur. Hún tekur fram að hnífnum hefði ekki verið beitt.

Í samtali við mbl.is kveðst Þuríður lítið geta tjáð sig um málið, þar sem hún hefði ekki sjálf verið á staðnum. Hún segir manninn hins vegar aldrei hafa komið inn fyrir dyr verslunarinnar, og að átökin hafi átt sér stað á bílaplani verslunarinnar. 

Starfsmenn Nova hringdu á lögreglu samstundis en Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti í samtali við mbl.is að maðurinn hefði verið handtekinn. 

Guðmundur segir rannsókn málsins vera á byrjunarstigi og því liggi ekki fyrir hvort málið verði rannsakað sem líkamsárás eða annað. Aðspurður segir Guðmundur árásarmanninn ekki vera ungan að aldri líkt og sumir þeirra sem hafa verið handteknir í tengslum við hnífaárásir að undanförnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert