Erum að læra hvernig Katla virkar

Katla nýtur þess vafasama heiðurs að vera eitt hættulegasta eldfjall …
Katla nýtur þess vafasama heiðurs að vera eitt hættulegasta eldfjall landsins. Ástæður þess eru meðal annars jökulhlaupin sem gjarnan fylgja Kötlugosum og nálægð hennar við byggð. Rax/Ragnar Axelsson

„Það er svo sem ekkert sem bendir til þess að Katla sé að fara að gjósa á morgun eða hinn en það er ýmislegt sem bendir til þess að hún sé að búa sig undir gos,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Bendir prófessorinn á að jarðvísindamenn hafi aldrei átt þess kost áður að fylgjast með Kötlu búa sig undir gos með þeim mælingabúnaði sem nú til dags er fyrir hendi.

„Þannig að við erum eiginlega að læra hvernig fjallið virkar, við vitum ekkert hvernig hún býr sig undir gos. Því lengra sem líður milli gosa – og núna erum við komin í 105 ár, við erum að nálgast lengsta goshlé Kötlu sem við vitum um – þeim mun stærra gæti gosið verið þegar það fer af stað. Þegar hún hefur haft allan þennan tíma til að hlaða í,“ segir Þorvaldur.

Prófessor Þorvaldur í essinu sínu í Geldingadölum þegar það gos …
Prófessor Þorvaldur í essinu sínu í Geldingadölum þegar það gos var og hét. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Stórir og á fimm kílómetra dýpi

Aðspurður segir hann þá virkni sem nú verði vart við ekki óvenjulega, nema hugsanlega að einu leyti.

„Það sem var óvenjulegt við þessu hrinu um daginn er að skjálftarnir voru tiltölulega stórir og á fimm kílómetra dýpi. Þeir tengjast þá líklega einhverri kviku sem hefur verið að færa sig til en hvað akkúrat var að gerast er erfitt að segja til um,“ heldur prófessorinn áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert