Fatahönnuðirnir Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir og Hera Guðmundsdóttir stóðu uppi sem sigurvegarar í hönnunarsamkeppni Kormáks og Skjaldar.
Tillögur þeirra Aðeins það bezta fyrir ferðalagið: Nytjahlutir Kormáks og Skjaldar úr íslensku tvídi eru varanleg eign og Hálendismeyjar og borgardætur velja íslenska tvídið frá Kormáki og Skildi hlutu hæstu einkunn frá dómnefnd í hönnunar- og hugmyndasamkeppni um nýjar vörur hannaðar úr íslensku tvídi.
Verðlaunin voru afhent í gær fyrir tískusýningu Kormáks og Skjaldar í Hafnarhúsinu. Hlutu þær 500.000 krónur hvor, það er 250.000 krónur frá Kormáki og Skildi og 250.000 frá styrktaraðilanum Ístex, að því er segir í tilkynningu.
„Það er okkur hjá Kormáki og Skildi mikil ánægja að sjá frábæra þátttöku í hönnunarsamkeppni um notkun á Íslenska tvídinu í fatnað og nytjamuni. Það er greinilegt að tvídið okkar höfðar til íslenskra hönnuða og við þökkum góð viðbrögð,“ er haft eftir Gunnari Hilmarssyni, formanni dómnefndar og yfirhönnuði Kormáks og Skjaldar, í tilkynningunni.
Í umsögn dómnefndar kemur fram að tillögur Guðrúnar og Heru séu faglegar þar sem nálgun hönnunar og notkun tvíd efnisins sé afar ólík, frumleg og spennandi.
„Einnig vakti það athygli dómnefndar hversu vel unnar þær voru og greinilegt að mikil vinna lá að baki verkefnanna. Það er gaman að sjá ólíka hönnuði vinna með þetta einstaka hráefni.“
Að auki hlutu tillögur fjögurra hönnuða sérstaka viðurkenningu dómnefndar. Vera Þórðardóttir, Valdís Steinarsdóttir, Eiríkur Erlingsson og Björg Ingadóttir hlutu öll 50.000 króna gjafabréf í verslun Kormáks og Skjaldar.