Leiðtogafundur þá og nú

Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev í Höfða
Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev í Höfða mbl.is/RAX

Undirbúningur fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins, sem fram fer í Hörpu dagana 16.-17. maí, er í fullum gangi enda styttist óðum í stóru stundina. Fundurinn er sá stærsti sem haldinn hefur verið hér á landi frá því að Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna og Mikhaíl Gorbatsjev, leiðtogi Sovétríkjanna, funduðu í Höfða dagana 11.-12. október árið 1986.

Það er ekki úr vegi að bera leiðtogafundina saman. Þótt leiðtogarnir sem mættust í Höfða hafi einungis verið tveir og búist sé við um 50 leiðtogum á fundinn nú í maí, þá er margt líkt með umstangi á bak við fundina tvo, enda að mörgu að hyggja.

Gríðarleg öryggisgæsla

Meðal þess sem feikilegu máli skiptir á viðburðum sem þessum er öryggisgæsla. Líkt og mikið hefur verið fjallað um að undanförnu mun öryggisgæsla vegna fundarins í Hörpu hafa töluverð áhrif á almenning. Götur í kringum húsið verða lokaðar fyrir umferð ökutækja. Þó verður hægt að fara um svæðið gangandi og á hjóli, en svæðið næst Hörpu verður lokað almenningi. Þá má búast við umferðartöfum um allt höfuðborgarsvæðið vegna aksturs sendinefnda þá daga sem fundurinn varir.

Viðbúnaður vegna fundarins á Höfða var einnig töluverður en allar ráðstafanir voru gerðar að kröfu öryggisvarða stórveldanna líkt og fram kom í Morgunblaðinu þann 9. október 1986. Bráðabirgðalög voru sett um leigunám á húsnæði sem snéri að Höfða og ollu lögin töluverðum vandræðum fyrir eigendur húsnæðisins en flestir höfðu leigt það fjölmiðlum fyrir fundinn.

Óvopnaðir íslenskir björgunarsveitarmenn mynduðu stóran hring umhverfis Höfða meðan á …
Óvopnaðir íslenskir björgunarsveitarmenn mynduðu stóran hring umhverfis Höfða meðan á fundinum stóð mbl.is/Árni Sæberg

Þá voru takmarkanir á flugumferð bæði um Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöll frá því degi áður en fundurinn hófst, þar til degi eftir að honum lauk, nema að fenginni undanþágu. Engin flugumferð var leyfð klukkutíma fyrir og eftir áætlaða komu og brottför leiðtoganna.

Eins voru siglingar á hafnarsvæði Reykjavíkur takmarkaðar eins og mögulegt var. Öll umferð skipa var bönnuð milli Engeyjar og Laugarness, svo og umferð skemmtibáta um gömlu höfnina og inn að Laugarnesi. Tvö varðskip auk nokkurra báta voru við gæslustörf og skip látin tilkynna sig örar en venjan var.

Gera má ráð fyrir takmörkunum á flugumferð

Þó að ljóst sé að mikill viðbúnaður verði í kringum leiðtogafundinn í Hörpu þá verða takmarkanir á flugumferð ekki með sama hætti og vegna fundarins á Höfða, að sögn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, verkefnastjóra í alþjóðamálum hjá forsætisráðuneytinu. Gera megi ráð fyrir einhverjum takmörkunum þegar leiðtogarnir og sendinefndirnar bæði koma og fara, hvort sem það er frá Keflavíkur- eða Reykjavíkurflugvelli. Enn eigi þó eftir að leggja lokahönd á fyrirkomulagið á þeim. Rósa segir þó enga röskun verða á flugumferð á meðan á fundinum stendur.

Á sama hátt verður einnig aukið eftirlit á sjó úti fyrir Reykjavík. Varðskipið Þór verður við öryggisgæslu ásamt Landhelgisgæslunni sem kemur til með að fylgjast grannt með skipaumferð umhverfis landið með fjareftirliti, gervitunglamyndum og þyrlum, að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslu Íslands.

Hagaskóli gerður að fréttamiðstöð

Á þeim tæpu 37 árum sem nú eru liðin frá fundinum á Höfða hefur margt breyst og þá sérstaklega þegar kemur að tækninni. Hugsanlega á tæknin þátt í því að nú í maí er einungis búist við um 300-500 blaðamönnum hingað til lands, samanborið við þá 3.200 fjölmiðlamenn sem hingað komu vegna leiðtogafundarins á Höfða, líkt og Helgi Ágústsson, fyrrverandi sendiherra, greindi blaðamanni frá.

Helgi var kallaður heim til Íslands frá skyldustörfum í Bretlandi  til að halda utan um alþjóðlega fréttamiðstöð sem sett var upp í Hagaskóla. Ástæðan var sú að hann hafði reynslu af samskiptum við erlenda blaðamenn vegna starfa sinna.

Mynd frá upplýsingamiðstöðinni í Hagaskóla.
Mynd frá upplýsingamiðstöðinni í Hagaskóla. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Algjört fréttabann í Höfða

Þar sem algjört fréttabann var frá fundinum var lögð gríðarleg áhersla á landkynningu. Að sögn Helga var unnið að því hörðum höndum í fréttamiðstöðinni að bóka viðtöl fyrir erlendu fjölmiðlana víðs vegar um bæinn og kynna þannig landið fyrir umheiminum.

Helsta áhyggjuefnið á þeim tíma var hvort símalínur yrðu nægilega margar úr landinu, en þeim var fjölgað úr 215 í um 400 að undanskildum símalínum fyrir fjölmiðla Hvíta hússins.

Það er þó ekki svo að algjört fréttabann verði frá leiðtogafundi Evrópuráðsins nú í maí, en að sögn Rósu Bjarkar verður bein útsending frá opnunarathöfn fundarins og aðalumræðum.

Bílalest Mikhails Gorbachev, leiðtoga Sovétríkjanna, brunar inn yfir borgarmörk Reykjavíkur. …
Bílalest Mikhails Gorbachev, leiðtoga Sovétríkjanna, brunar inn yfir borgarmörk Reykjavíkur. Myndin var tekin ofan af brúnni á Bústaðavegi. Bifreiðarnar óku rakleitt niður á Ægisgarð að farþegaskipinu George Otz, þar Gorbachev hélt til. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Leiðtogarnir ekki einir síns liðs

Þrátt fyrir að fundurinn í Höfða hafi einungis verið meðal tveggja leiðtoga fylgdu þeim um 400 manns til landsins. Til samanburðar er ráðgert að um 500 manns muni fylgja leiðtogunum, í sendinefndum, nú í maí. Að sögn Rósu Bjarkar mega einungis ellefu manns vera í sendinefndunum sem fylgja leiðtogunum á fundinn. Þó sé mögulegt að fleiri fylgi hverjum leiðtoga fyrir sig. 

Skammur fyrirvari 1986

Helgi minnist þess í samtali við blaðamann hve stuttur fyrirvarinn hafi verið fyrir fundarhöldum á Höfða. Þau hafi einungis verið staðfest með tveggja vikna fyrirvara, en í Morgunblaðinu 9. október 1986 var greint frá því að fundurinn færi fram 11.-12. október og hófst þá gríðar mikil vinna við undirbúning. Í blaðinu var jafnframt fjallað um sögulega tilkynningu Ronald Reagan, en hann tilkynnti óvænt um fundinn í Hvíta húsinu þar sem verið var að ræða um lyktir í Daniloff-málinu.

Ekki hefur þó verið boðað til leiðtogafundar hér á landi með svo skömmum fyrirvara síðan þá. Formleg ákvörðun um að leiðtogafundur Evrópuráðsins yrði haldinn hér á landi nú í maí var tilkynnt þann 7. nóvember, eða með um sjö mánaða fyrirvara. Undirbúningurinn hefur þrátt fyrir það verið gríðarlega mikill, enda að mörgu að hyggja.

Sérfræðingar stórveldanna kanna aðstæður að Höfða.
Sérfræðingar stórveldanna kanna aðstæður að Höfða. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert