Segir sakamálið í Hafnarfirði liggja ljóst fyrir

Fjarðarkaup í Hafnarfirði.
Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir sakamálið í Hafnarfirði þar sem maður lést eftir hnífstungu við Fjarðarkaup liggja nokkuð ljóst fyrir og að rannsókn málsins sé vel á veg komin.

Grímur getur ekki staðfest hvort einhverjir af sakborningunum þremur sem enn sæta gæsluvarðhaldi séu búnir að játa verknaðinn.

Sakborningarnir sæta nú fjögurra vikna gæsluvarðhaldi. Þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald 27. apríl og mun það því renna út 24. maí. Grímur segir að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald að því loknu. 

Enn beðið eftir ýmsum gögnum

Hann bætir við að málið verði að öllum líkindum sent til héraðssaksóknara innan átta vikna. Hann segir ástæðu þessa tímaramma vera nokkuð venjubundna en samkvæmt lögum þarf að gefa út ákæru innan tólf vikna frá handtöku. Að sögn Gríms er eðlilegt að gefa héraðssaksóknara nokkrar vikur til að ná utan um málið áður en ákæra er gefin út.

„Átta til tíu vikur er það sem við stefnum að. Rannsóknin hefur gengið mjög vel og þetta liggur tiltölulega skýrt fyrir.“

Grímur segir að rannsókninni sé þó alls ekki lokið og að lögreglan bíði enn eftir ýmsum gögnum. Sum þeirra koma erlendis frá. Sem dæmi um gögn nefnir Grímur mannerfðafræðileg gögn og bætir við að lokaniðurstaða úr krufningu liggi ekki enn fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka