Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fer í þriggja daga opinbera heimsókn í Fjarðabyggð á morgun, mánudag.
Meðal annars mun hann heimsækja efri byggðir Neskaupstaðar og kynna sér áhrif snjóflóðanna sem féllu þar í mars, að því er fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.
Í Neskaupstað heimsækir hann einnig Umdæmissjúkrahús Austurlands, Síldarvinnsluna og samvinnuhúsið Múlann.
Í kjölfarið verður siglt til Mjóafjarðar.
„Þar búa að jafnaði um tíu manns í einni afskekktustu byggð landsins og verður efnt til kaffisamsætis með íbúum,“ segir í tilkynningu.
Á þriðjudag heimsækir forsetinn meðal annars Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla, Sköpunarmiðstöðina á Stöðvafirði og snæðir hádegisverð með eldri borgurum á Stöðvarfirði.
Á miðvikudaginn heimsækir Guðni meðal annars leik- og grunnskóla bæjarins Reyðarfjarðar. Þá snæðir forseti hádegisverð með starfsfólki í mötuneyti Alcoa Fjarðaáls sem er fjölmennasti vinnustaður sveitarfélagsins.