Samstöðin stendur nú á krossgötum í rekstri sínum eftir að nánast öllum tæknibúnaði miðilsins var rænt. Gunnar Smári Egilsson ritstjóri segist ekki vita nákvæmlega hver næstu skref verða en eitt sé þó víst: „Við munum rísa upp aftur öflugri en áður.“
Brotist var inn í starfstöð Samstöðvarinnar í Bolholti aðfaranótt laugardags. Nánast öllum búnaði var rænt og skemmdarverk voru unnin á ýmsum nauðsynlegum búnaði.
Starfsfólk Samstöðvarinnar ætlaði á laugardagsmorgun að senda út fund um húsnæðismál en þegar það mætti til starfa sá það að megni af búnaðinum vantaði. Fundinum var því frestað.
Gunnar Smári segir að þessi missir falli þungt á miðilinn, þar sem hann muni nú þurfa að gera hlé á öllum útsendingum sínum. Hann segir hins vegar að ástandið muni ekki hafa nein áhrif á fréttavef Samstöðvarinnar. Fjölmiðillinn hafi þó lagt meiri áherslu á útsendingar heldur en fréttaskrif.
„Þetta er lítið högg en þar sem við erum líka svo lítil þá er þetta hlutfallslega stórt,“ segir Gunnar Smári í samtali við mbl.is. Hann segir Samstöðina tapa mun meiri verðmætum heldur en þjófarnir geti mögulega grætt á búnaðinum.
Hann segir mikið af þeim búnaði sem stolið var hafa verið í persónulegri eigu starfsmanna og sjálfboðaliða sem stóðu að útsendingum og upptökum fyrir miðilinn.
„Ég held að þeir hafi tiltölulega lítinn ávinning af þessu miðað við skaðann sem við verðum fyrir.“
„Við erum slegin niður á þennan núllpunkt en við ætlum þá kannski bara að „njóta þess“ á meðan við getum,“ segir Gunnar Smári.
Samstöðin sé nú að gæla við það að skoða uppbyggingu miðilsins aðeins öðruvísi. Hann lítur svo á að miðillinn geti kannski komið sterkari út úr ástandinu.
„Við reiknum með því að byrja aftur og erum að leita að leiðum til þess að byrja öflugri, en við erum bara á þeim stað að það er svolítið bjánalegt að segja til um hvenær það verður, en við munum rísa upp aftur öflugri en áður,“ segir hann að lokum.