Stjórn Íslandsdeildar alþjóðaráðs safna (ICOM) geldur varhug við uggvænlegri þróun á sviði menningarmála. Í ályktun frá stjórninni eru vinnubrögð ráðgjafa KPMG gagnrýnd, en stjórnin telur að sveitarstjórnir og aðilar í einkageiranum hafi í sameiningu vegið að grunnstoðum ýmissa menningarstofnana með því að leggja þær niður eða sameina.
Stjórnin gagnrýnir sérstaklega ákvarðanir um að leggja niður Borgarskjalasafn og Héraðsskjalasafn Kópavogs, ásamt áformum um að Gerðarsafn taki við verkefnum Náttúrustofu Kópavogs. Slíkar ákvarðanir taka að þeirra mati ekki tillit til sögu og menningarlegs gildis stofnana, heldur einblína á gróðasjónarmið og niðurskurð.
Þá segir ályktunin það í bága við safnalög sem kveða á um að söfn séu „varanlegar stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru ekki rekin í hagnaðarskyni“.
Stjórnin segir greiningu ráðgjafa KPMG fulla af rangfærslum og villum sem hljóti að benda til bersýnilegs skilningsskorts þeirra á hlutverki og gildi menningarstofnana fyrir samfélagið, auk þess sem skakkar forsendur liggi til grundvallar fjölmörgum tillögum þeirra um hagræðingu.
Reykjavíkurborg og Kópavogsbær leituðu ráða KPMG varðandi hagræðingu rekstrar, en ályktunin setur út á að ráðamenn hafi samþykkt tillögur ráðgjafanna í skyndi án frekara samráðs við forstöðumenn og sérfræðinga í menningargeiranum.
Enn fremur segja þau vert að kanna betur viðhorf almennings til varanlegra og veigamikilla breytinga á skipulagi stofnana í almannaeigu.