Kominn heim af sjúkrahúsinu

Guðmundur Felix birti meðfylgjandi myndskeið.
Guðmundur Felix birti meðfylgjandi myndskeið.

Guðmundur Felix Grétarsson virðist kominn heim af sjúkrahúsinu þar sem hann hefur að undanförnu dvalið.

Þurfti hann þar að gangast undir nokkrar aðgerðir, vegna sýkingar og roðbletta, sem gáfu til kynna að líkami hans væri að hafna handleggjunum sem á hann voru græddir. 

Guðmundur birti myndband á Instagram-reikningi sínum rétt í þessu þar sem hann virðist vera kominn heim af sjúkrahúsi. 

Óvanalegt er að líkaminn sýni höfnunareinkenni þegar svo langt er liðið frá ágræðslu. Guðmundur gekkst undir 14 klukkustunda aðgerð fyrir rúmum tveimur árum, en hann var fyrstur manna í heiminum til að gangast undir handleggjaágræðslu. 

Myndbandið ber fyrirsögnina „Fyrsta heimkoman í tíu daga“ og má þar sjá hunda Guðmundar taka á móti honum með fagnaðarlátum. Guðmundur hefur verið búsettur í Lyon síðan árið 2013 og býr þar ásamt eiginkonu sinni Sylwiu Gretarsson. 

Rætt er við Guðmund Felix í Morgunblaðinu í dag. Hann segir liðnar vikur hafa verið mjög erfiðar en hann tekur bakslaginu af æðruleysi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert