Lögmaður kærður fyrir kynferðisbrot

Rannsóknin er vel á veg komin.
Rannsóknin er vel á veg komin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenskur lögmaður hefur verið kærður fyrir að hafa brotið kynferðislega á og nauðgað eiginkonu skjólstæðings síns. 

Lögmaðurinn er með málflutningsréttindi fyrir Landsrétti og er sagður hafa brotið gegn konunni á meðan eiginmaður hennar var í einangrun á Hólmsheiði.

Vísir greinir frá, en í umfjölluninni kemur fram að nokkur meint kynferðisbrot séu til rannsóknar, þar af tvö sem séu rannsökuð sem nauðgunarbrot. Er lögmaðurinn sagður fyrst hafa brotið á konunni á geðdeild Landspítala. Hafði hún verið lögð þar inn eftir að eiginmaður hennar var úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Samkvæmt heimildum mbl.is er málið til rannsóknar hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Í umfjöllun Vísis segir að rannsóknin sé vel á veg komin og hafa konan og lögmaðurinn bæði gefið skýrslu. Þá kemur fram að til standi að kæra lögmanninn til ríkislögreglustjóra. Er honum gefið að sök að hafa brotið á mannréttindum skjólstæðings síns. 

Fengu fyrst fregnir af málinu í morgun

Sigurður Örn Hilmarsson, formaður lögmannafélags Íslands, LMFÍ, segist ekki vita til þess að kvörtun vegna málsins hafi borist til félagsins. Segir hann LMFÍ fyrst hafa fengið fregnir af því í morgun.

Hann kveðst ætla að fylgjast með gangi mála, en tekur þó fram að það að lögmenn séu kærðir eða ákærðir fyrir meint brot, leiði ekki til þess að þeir missi starfsréttindi sín. 

„Menn missa lögmannsréttindi sín ef þeir eru dæmdir og fá fangelsisdóm. Það að vera kærður fyrir brot, sama hversu hið meinta brot er svívirðilegt, það leiðir ekki til þess að menn missi starfsréttindi sín. Þá er mikilvægt að hafa í huga að lögmenn eru sjálfstæðir í störfum sínum,“ segir Sigurður og tekur fram að það sé í höndum skjólstæðinga að velja sér lögmann.

Sjálfstætt starfandi úrskurðarnefnd er innan LMFÍ en sú nefnd hefur m.a. til skoðunar brot á siðareglum lögmanna. Sigurður kveðst ekki hafa upplýsingar um hvort þangað hafi borist erindi.

„Brot á lögmannalögum eða siðareglum lögmanna geta komið til skoðunar hjá úrskurðarnefnd lögmanna.“ 

Hann tekur þó fram að almennt skilyrði sé að hin meintu brot séu í tengslum við störf lögmannanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert