Ragnar Þór Ingólfsson, Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök leigjenda, ásamt fleirum, standa fyrir mótmælum þann 13. maí næstkomandi. Ragnar segir mótmælin vera afleiðingu þess að fólk sé búið að fá nóg af því að sjá grunnstoðir samfélagsins molna niður. Fólk sé orðið þreytt á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.
Spurður hverjir standi fyrir mótmælunum segir hann það í raun vera hóp fólks sem hafi staðið í baráttu fyrir samfélagsbreytingum frá hruni.
„Okkur líst ekki á þessa þróun sem er í gangi í okkar samfélagi. Sérstaklega út frá nýjustu afkomutölum bankanna og þessari tilfærslu sem er að verða á fjármunum frá heimilum landsins. Bæði í formi eignatöku út af verðtryggðu lánunum og sömuleiðis háu vaxtastigi, sem er í sjálfu sér bara tilfærsla yfir í bankana. Ég bendi á það að bara fyrir hagnað bankanna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, mætti byggja fimm hundruð hagkvæmar íbúðir, til þess að setja það í samhengi. Í ljósi þess að framkvæmdir eru að dragast saman á húsnæðismarkaði, þegar þær ættu raunverulega að vera að aukast,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR í samtali við mbl.is.
Hann segir grunnstoðir samfélagsins vera að molna niður og nefnir þar heilbrigðiskerfið. Fólk sé orðið þreytt á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og þá staðreynd að sótt sé í vasa heimilanna, en ekki þeirra sem meira eigi.
„Það er eiginlega sama hvar við drepum niður, við erum alls staðar einhvern veginn að fara í öfuga átt.“
Stórfyrirtæki hafi hagnast mikið á undanförnum árum á meðan kaupmáttur landans dvíni. Hann lýsir getuleysi stjórnvalda og Seðlabankans til þess að ná tökum á núverandi ástandi á leigumarkaði og gæta sanngirni.
Þau hafi verulegar áhyggjur af að á næstu misserum muni fara fram mikil eignaupptaka frá heimilum landsins.
„Þegar öll ný lán sem fjármálakerfið er að veita í dag til heimilanna eru verðtryggð, og ríkisstjórnin og Seðlabankinn bera vissulega stóra ábyrgð á þessu verðbólguástandi sem er hér. Sérstaklega ef við tökum helstu áhrifaþætti verðbólgu síðustu mánaða, hækkun á opinberum gjöldum til heimilanna, vaxtahækkanir og húsnæðismarkaðinn. Þetta eru þessir stóru þættir og við erum að krefjast breytinga,“ segir Ragnar. Þess sé krafist að fólkið í landinu verði sett í forgang.
Hann segir ekki ganga að ungt fólk geti ekki fengið dagvistun fyrir börnin sín, leigumarkaðurinn sé hreinlega vígvöllur, fólk komist ekki inn á húsnæðismarkað og endi á götunni. Þá hafi ný könnun Vörðu sýnt fram á að um helmingur launafólks eigi erfitt með að ná endum saman.
„Maður myndi kannski skilja ástandið betur ef þetta væri staðan líka í atvinnulífinu og fjármálakerfinu, að það væri lítið svigrúm, en það er alls ekki þannig, það drýpur smjör af hverju strái,“ segir Ragnar, og að forgangsröðunin sé ekki rétt.
„Kjarasamningar eru ekki lausir fyrr en í janúar á næsta ári og ef við ætlum að bíða fram að þeim tíma, þá munu lánin hækka um tugi þúsunda, leigan mun hækka um tugi þúsunda, kaupmáttur mun rýrna enn frekar vegna hækkandi verðlags og opinberra gjalda. Þetta er í rauninni bara nauðvörn,“ segir Ragnar.
Hver eru skilaboðin til fólksins í landinu?
„Skilaboðin eru bara þau að staðan mun versna og hún mun versna þangað til fólkið er tilbúið til þess að rísa upp. [...] Ég ber von í brjósti um að fólk mæti, sýni samstöðu, samstöðu um breytingar. Það er fyrst og fremst það sem við erum að kalla eftir, réttlæti,“ segir Ragnar, en hann hafi fengið góð viðbrögð nú þegar. Mætingin verði líklega mælikvarði á það hversu miklum þrýstingi verði hægt að breyta.
„Eðli málsins samkvæmt er þetta bara byrjunin. Við getum ekki beðið. Við getum ekki beðið eftir því að leigan hækki um þrjátíu, fjörutíu þúsund. Við getum ekki beðið eftir því að fastir vextir renni út á lánum og afborganir stökkbreytist frekar, við þurfum að bregðast við núna. Þetta er okkar eina leið eins og staðan er í dag, vegna þess að stjórnvöld hvorki hlusta né vilja hlusta,“ segir Ragnar. Hann vonist til að stjórnvöld vakni og hlusti á fólkið, sé það tilbúið til að rísa upp.
Boðað hefur verið til mótmæla klukkan 14.00 laugardaginn 13. maí.
Facebook færslu Ragnars vegna mótmælanna má sjá hér að neðan.