Frjósemi aldrei verið minni

Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á …
Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Ljósmynd/Colourbox

Frjósemi hefur aldrei verið minni en árið 2022 og eignast konur nú sitt fyrsta barn að jafnaði síðar á ævinni en áður. Fjöldi lifandi fæddra barna á Íslandi á síðasta ári var 4.391, sem er mikil fækkun frá árinu 2021 þegar 4.879 börn fæddust, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. 

Er þetta mesta fækkun á lifandi fæddum börnum sem hefur átt sér stað á milli ára frá 1838, eða fækkun upp á 488 börn.

Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn á hverja konu til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið. Árið 2022 var frjósemi íslenskra kvenna 1,59 og hefur hún aldrei verið minni frá því að mælingar hófust árið 1853. Þess ber að geta að frjósemi hefur ekki farið upp fyrir 2,0 í tíu ár hér á landi, en síðast gerðist það árið 2012 þegar hún var 2,04.

Afar lág fæðingartíðni mæðra undir tvítugu

Meðalaldur mæðra hefur hækkað jafnt og þétt síðustu áratugi, en frá árinu 1932 hefur aldursbundin fæðingartíðni alltaf verið hæst í aldurshópunum 20-24 ára og 25-29 ára en árið 2019 varð sú breyting að fæðingartíðnin reyndist hæst innan aldurshópsins 30-34 ára. 

Þá var fæðingartíðni mæðra undir tvítugu í fyrra 3,0 börn á hverjar 1.000 konur. Það er afar lágt í samanburði við tímabilið 1961-1965 þegar hún fór hæst, en þá fæddust 84 börn á hverjar 1.000 konur undir tvítugu.

Fyrir utan síðustu tvö ár þarf að fara aftur til ársins 1870 til að finna annað ár þar sem fæðingartíðni mæðra undir tvítugu fór undir fjögur börn á hverjar 1.000 konur.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert