Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri viðurkennir að þversögn felist í því hve erfitt er að fá lánsfé vegna hárra vaxta og stífra reglna um íbúðakaup á sama tíma og afar mikil þörf sé til staðar fyrir nýtt íbúðarhúsnæði. Engin óskastaða sé að þurfa að beita vöxtum til að takmarka fjölda íbúðarkaupenda. Lausnin liggi hjá stjórnmálamönnum sem þurfi að beita sér fyrir meiri uppbyggingu.
Þetta kom fram í svari Ásgeirs við spurningu Indriða Inga Stefánssonar Pírata á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar um skýrslu fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands.
„Ég sjálfur tel að við höfum aldrei náð að byggja nægilega mikið eftir byggingageirinn hrundi eftir efnahagshrunið árið 2008. Við höfum ekki náð að byggja í takti við þörf. Bæði í ljósi þess hve okkur fjölgar hratt en líka sést það í því hvað við erum að flytja inn margt fólk," segir Ásgeir.
Hann bendir á 6-7% hagvöxtur sé drifinn áfram af aðfluttu vinnuafli. Það skapi aftur þrýsting á fasteignamarkaðinn sem aftur stuðli að verðbólguþróun. „Við höfum verið að reyna að vega á móti því, enda kemur verðbólgan m.a. fram í fasteignaverði, með því að hækka vexti og setja lánþegaskilyrði. En auðvitað leysist skorturinn ekki með því heldur kemur hann fram á leigumarkaði,“ segir Ásgeir.
Hann segir að sveitarstjórnir og ríkið megi taka þetta til sín. „Ég veit ekki hvort ég sé kominn út fyrir mitt svið en mér finnst sjálfum eins og ákveðnir hópar á fasteignamarkaði hafi bara gleymst. Ekki hafi verið hugað að lausn fyrir þá,“ segir Ásgeir.
Hann segist gera sér grein fyrir því að hætt sé við frekari hækkunum á fasteignamarkaði en óttast að það geti leitt til lækkunar síðar meir. „Það er ótrúlega erfitt að beita vöxtum á húsnæðismarkaðinn. Mögulega getur þú verið aðeins lengur heima hjá mömmu og pabba en það breytir því ekki að þú þarft eina íbúð á hverja fjölskyldu. Þannig að þessi meðul sem við erum að beita eru ekkert endilega það sem við myndum óska okkur að gera. Að bregðast við of litlu framboði með því að takmarka fjölda kaupenda. Það skapar hins vegar vandamál annars staðar. Einhverjir hópar detta út af fasteignamarkaði en við (Seðlabankinn) getum lítið gert í því.“ Ítrekaði hann í framhaldinu að það væri hlutverk stjórnmálamanna að bregðast við þessu ástandi.