Helga Jóna Jónasdóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri Sundabrautar hjá Vegagerðinni. Hún mun vinna fyrir verkefnisstjórn um undirbúning Sundabrautar, sem skipuð var af innviðaráðherra á síðasta ári. Helga Jóna mun einnig vinna í nánu samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og þróunarsvið Vegagerðarinnar.
Þetta eru mikil tímamót því Helga Jóna er fyrsti fasti starfsmaðurinn sem ráðinn er að Sundabrautarverkefninu, en það hefur verið í umræðunni í tæpa hálfa öld, eða frá árinu 1975. Hún hefur þegar hafið störf við verkefnið.
Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að næstu skref undirbúnings Sundabrautar verði vinna við mat á umhverfisáhrifum, frekari útfærsla valkosta, samráð við hagsmunaaðila og undirbúningur nauðsynlegra breytinga á skipulagsáætlunum. Markmiðið er að hægt verði að hefja framkvæmdir við Sundabraut eigi síðar en árið 2026 og að þeim verði lokið árið 2031.
Gert er ráð fyrir að Sundabraut verði fjármögnuð með gjaldtöku af umferð, í samræmi við lög sem samþykkt voru á Alþingi árið 2020. Fýsilegasti valkosturinn er Sundabraut á brú yfir Kleppsvík, frá Holtavegi yfir í Gufunes.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.