Borgarráð hefur samþykkt tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að teknar verði upp viðræður við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um óskir ráðuneytisins þess efnis að fundnar verði staðsetningar í borginni fyrir „Skjólgarða“, búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Í greinargerð með tillögu borgarstjóra kemur fram að í kjölfar aukins fjölda flóttafólks frá Úkraínu og öðrum ríkjum til landsins hafi ráðuneytið fyrir hönd Guðmundar Inga Guðbrandssonar félags- og vinnumarkaðsráðherra með bréfi til Reykjavíkurborgar dagsettu 12. apríl sl. óskað eftir að hafinn verði undirbúningur að því að reisa svokallaða skjólgarða (einingabyggðir) fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd líkt og önnur ríki Evrópu hafa gert.
Gert er ráð fyrir að hver skjólgarður rúmi allt að 250 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í hverjum skjólgarði verði 80-85 búsetueiningar á einni eða tveimur hæðum.
Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir muni sjá um að óska eftir tilboðum í einingarnar sjálfar. Í bréfi ráðuneytisins segir að um tímabundin úrræði sé að ræða í allt að fjögur ár á meðan aðrir möguleikar til búsetu flóttafólks séu takmarkaðir eins og staðan sé nú.
Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.