Lögmannafélagið hyggst standa fyrir námskeiði fyrir félagsmenn sína um það hvernig þeir eiga að haga sér við skjólstæðinga sem sæta einangrunarvist.
Námskeiðið verður haldið á fimmtudag en svo vill til að það er haldið skömmu eftir að fram komu upplýsingar um kæru á hendur lögmanni, sem sakaður er um nauðgunarbrot gegn eiginkonu skjólstæðings síns á meðan hann sat í einangrun.
Jafnframt er hann sakaður um mannréttindabrot gegn skjólstæðingi sínum sem sat í einangrunarvist í gæsluvarðhaldi.
Námskeiðið er haldið undir yfirskriftinni: Andlegur stuðningur við skjólstæðinga í gæsluvarðhaldi.
„Þó lögmenn sinni ekki sálgæslu þá kemur fyrir að skjólstæðingar þeirra þurfi sárlega á henni að halda, til dæmis í gæsluvarðhaldi. Á námskeiðinu verður farið yfir áhrif einangrunarvistar á einstaklingi og hvernig lögmenn geta stutt við skjólstæðinga sem sæta einangrunarvist. Hvernig á að aðstoða sjúklinga í áfalli?“ segir í lýsingu á námskeiðinu.
Eyrún Ingadóttir, skrifstofustjóri Lögmannafélags Íslands segir að um algjöra tilviljun sé að ræða og námskeiðið tengist ekki umræddum ásökunum.
„Þetta átti að vera fyrr í vetur en þetta hittist bara svona á,“ segir Eyrún.