Hæstiréttur hefur samþykkt beiðni ríkislögreglustjóra og íslenska ríkisins um áfrýjun dóms Landsréttar frá 17. febrúar í máli framangreindra aðila gegn fjórum yfirlögregluþjónum um launakjör sem á rætur sínar í samkomulagi Haraldar Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóra, við yfirlögregluþjónana í ágúst 2019.
Laut samkomulagið að breytingu á samsetningu launa sem fól í sér að laun yfirlögregluþjónanna voru færð upp um sjö launaflokka og fimm þrep og föst yfirvinna þannig færð inn í grunnlaun þeirra. Samdi ríkislögreglustjóri á sínum tíma við tvo yfirlögregluþjóna og sjö aðstoðaryfirlögregluþjóna.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, núverandi ríkislögreglustjóri, afturkallaði samkomulagið og taldi embættið ekki bundið af samningum forvera hennar. Höfðuðu lögregluþjónarnir þá mál og kröfðust þess að samkomulagið stæðu. Hlutu þeir meðbyr fyrir héraðsdómi og fyrir Landsrétti í áfrýjuðu máli.
„Landsréttur vísaði til þess að kjör gagnaðila hefðu ráðist af kjarasamningi Landssambands lögreglumanna við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Við þær aðstæður yrði litið svo á, þótt gagnaðili hefði verið embættismaður, að kjör hans sem yfirlögregluþjóns hefðu farið eftir reglum sem ættu við um samninga á sviði vinnuréttar,“ segir í rökstuðningi Hæstaréttar með ákvörðun dómstólsins um að veita áfrýjunarleyfi.
Segir Hæstiréttur leyfisbeiðendur, það er ríkislögreglustjóra og íslenska ríkið, byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni þeirra. Vísi þeir til þeirra áhrifa sem niðurstaða málsins geti haft á það kjarasamningslíkan sem ríkið hafi byggt á frá aldamótum. Fer Hæstiréttur að því búnu yfir rök áfrýjunarbeiðenda.
„Opinbera vinnumarkaðnum sé settur mun skýrari lagarammi en þekkist á almennum markaði að því leyti meðal annars að svigrúm til launasetningar sé mun minna og samningsfrelsi í þessu sambandi takmarkaðra og verði alltaf að byggja á heimild í lögum eða kjarasamningi og fullnægjandi fjárheimild forstöðumanns.
Þá eigi þær forsendur Landsréttar ekki við rök að styðjast að fordæmi séu fyrir því að gerðar hafi verið ráðstafanir til að hækka grunnlaun yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna með því að færa fastar álags- eða yfirvinnugreiðslur inn í grunnlaun, enda hafi slíkar breytingar verið gerðar í tengslum við kjarasamningsgerð fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins og Landssambands lögreglumanna.“
Að því búnu fellst rétturinn á að taka málið til meðferðar.