500 milljónir í „gagnslaust kerfi“?

FA bendir á að ólíklegt sé að kerfið geri nokkurt …
FA bendir á að ólíklegt sé að kerfið geri nokkurt einasta gagn til að vinna gegn lyfjaskorti. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Félag atvinnurekenda gerir alvarlegar athugasemdir og leggst eindregið gegn frumvarpi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra, sem gerir ráð fyrir að Lyfjastofnun fái aðgang að rauntímaupplýsingum um nánast allar birgðir lyfja og lækningatækja í landinu. FA bendir á að frumvarpið gangi miklu lengra en Evrópureglugerð, sem því er ætlað að innleiða, og feli í sér 500 milljóna króna kostnað við uppsetningu á nýju kerfi, sem vandséð sé að geri nokkurt einasta gagn.

Þær alvarlegu athugasemdir sem félagið bendir á í tilkynningu sinni, snúa að því að verið sé að „gullhúða“ frumvarpið. Gullhúðunin valdi því að íþyngjandi kröfum er bætt á íslensk fyrirtæki, sem skekkir samkeppnisstöðu þeirra gagnvart keppinautum í öðrum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins. 

Komi til þess að frumvarpið verði samþykkt verður markaðsleyfishöfum, framleiðendum, heildsölum, heilbrigðisstofnunum, lyfjabúðum og öðrum sem hafa leyfi eða rétt til að afhenda almenningi lyf, gert skylt að veita Lyfjastofnun upplýsingar um birgðastöðu allra lyfja í rauntíma.

Þróun kerfisins á að kosta 500 milljónir króna 

Þetta gagnrýnir FA og segir að hvergi í Evrópureglugerðinni sé kveðið á um slíkan rauntímaaðgang. Hún kveði heldur ekki á um vöktun á birgðastöðu allra lyfja, heldur einungis lyfja og lækningatækja sem eru á lista sem stýrihópur á vegum Lyfjastofnunar Evrópu á að skilgreina hverju sinni þegar upp kemur brýn ógn við lýðheilsu, eða meiriháttar atburður. Á þeim lista eru í dag 17 lyf, en í frumvarpi heilbrigðisráðherra er gert ráð fyrir vöktun á um 5.000 vörunúmerum.

Þróun kerfis til að halda utan um vöktunina á að kosta 500 milljónir króna. FA bendir á að ólíklegt sé að kerfið geri nokkurt einasta gagn til að vinna gegn lyfjaskorti, eins og er þó haldið fram í greinargerð frumvarpsins. En nánast undantekningalaust er ástæða þess að skortur er á lyfi í landinu vegna þess að lyfið er ófáanlegt frá framleiðanda. Þegar svo er komið er markaðsleyfishafi, nánast í öllum tilvikum búinn að gera allt sem hægt er til að fá auknar birgðir. Kerfið sem koma á upp mun þar af leiðandi engu breyta um skort, eins og fram kemur í tilkynningunni. 

„Markaðsleyfishafar eru með sérfræðinga í vinnu við birgðastýringu og nota öflug birgðastýringar- og söluspárkerfi. Þau kerfi innihalda m.a. frávikaskýrslur, sem birta sjálfkrafa yfirlit yfir vörur sem eru í hættu á að lenda í þroti, og bregðast strax við. Markaðsleyfishafar munu undantekningalaust fá vitneskju um að lyf séu að lenda í skorti og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að afla meiri birgða. Fyrirtæki í lyfjahóp, lyfsalahóp og heilbrigðisvöruhóp FA telja umrædda rauntímavöktun ekki munu hafa nein áhrif á skort á lyfjum og lækningatækjum,“ segir í umsögn FA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka