56 þingmenn ekki gerðir að ómerkingum

Jakob Frímann Magnússon.
Jakob Frímann Magnússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins, spurði félags- og vinnumarkaðsráðherra hvenær væri von á því að embætti hagsmunafulltrúa eldri borgara líti dagsins ljós.

Vísaði hann þar til þess er 56 þingmenn samþykktu þingsályktunartillögu þess efnis fyrir um tveimur árum síðan.

Jakob Frímann sagði Flokk fólksins hafa fagnað þessu á sínum tíma og nefndi að starfshópur hafi verið skipaður sem átti að skila tillögum fyrir 1. apríl í fyrra. Ekkert hafi aftur á móti orðið af því.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sagði að niðurstaða hópsins væri sú að fresta ákvörðun um stofnun embættisins. Skynsamlegra væri eins og málin standa núna að efla ráðgjöf til eldra fólks og upplýsingagjöf innan þeirra stofnana sem þegar eru til staðar.

Þetta yrði tveggja til þriggja ára tilraunaverkefni og á sama tíma yrði safnað gögnum um hvar skóinn kreppir þegar kemur að hagsmunum eldra fólks.

Kann ekki á nútímatækni

Jakob Frímann steig þá aftur í pontu: „Ég ætla ekki að trúa því að hæstvirtur félags- og vinnumarkaðsráðherra ætli að gera 56 þingmenn að ómerkingum,” sagði hann og bætti við að allir viðstaddir þingmenn hefðu samþykkt að stofna skyldi embættið.

Hann sagði fólkið sem um ræðir ekki kunna á nútímatækni og það fái ekki viðeigandi þjónustu.

Guðmundur Ingi sagði það ekki góð tíðindi ef hætta skuli að hlusta á ráðleggingar frá sérfræðingum og skynsamlegar tillögur úr þeirra röðum. Sagði hann málflutning Flokks fólksins storm í vatnsglasi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert