Ólafur Pálsson
Háskóli Íslands og Félagsstofnun stúdenta bíða enn niðurstöðu matsgerða um fjártjón vegna hins mikla vatnsleka í janúar árið 2021 þegar 60 ára gömul kaldavatnsæð við Suðurgötu gaf sig.
Þetta staðfestir Stefán A. Svensson hæstaréttarlögmaður í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is en Stefáni var falið að gæta hagsmuna Háskóla Íslands í málinu.
Dómkvaddur yfirmatsmaður vinnur nú að yfirmati á tjóninu en Veitur og VÍS höfnuðu 224 milljóna króna skaðabótakröfu frá Háskólanum í maí á síðasta ári.
Mistök voru gerð við framkvæmdir á vegum Veitna við Suðurgötu sem ollu því að kaldavatnsæðin fór í sundur þannig að vatn flæddi inn í byggingar háskólans, að því er bráðabirgðaniðurstöður greiningar starfsfólks Veitna leiddu í ljós skömmu eftir lekann.
Lekinn var um 500l/s og stóð í 75 mínútur áður en náðist að loka fyrir og runnu því út um 2.250 tonn af vatni.
Háskólatorgið og Gimli urðu verst úti vegna lekans en húsnæðið var tekið aftur í notkun á yfirstandandi skólaári.