Brýn þörf á loftmyndum af Íslandi

Loftmynd af Vopnafirði.
Loftmynd af Vopnafirði. Kort/Landmælingar Íslands

Settur forstjóri Landmælinga Íslands segir að efnt hafi verið til útboðs um öflun loftmynda af Íslandi vegna brýnnar þarfar á því að útvega þessi grunngögn fyrir samfélagið og veita opið aðgengi að þeim.

Útboðið var birt í síðasta mánuði og mun myndataka líklega hefjast um miðjan júlí. Gert ráð fyrir að halda áfram þar til allt landið hefur verið kortlagt, eftir um þrjú til fimm ár. Myndataka og vinnsla myndanna verður framkvæmd af þeim sem bjóða í verkið.

Fram kemur á vef Ríkiskaupa að mikilvægt sé „að tryggja stöðugan og ótakmarkaðan aðgang að háupplausnar og nákvæmt staðsettum loftmyndum á Íslandi fyrir alla“. 

Gríðarleg bylting

Gunnar Haukur Kristinsson, settur forstjóri Landmælinga Íslands, segir að gögn sem þessi hafi ekki verið til hérlendis. Í nágrannalöndunum séu menn aftur á móti lengra komnir í þessum efnum.

„Við gerum ráð fyrir að þetta verði gríðarleg bylting fyrir alla sem eru að stunda til dæmis náttúrufarsrannsóknir, skipulag eða verklegar framkvæmdir, að hafa einfalt og opið aðgengi að þessum gögnum,” segir hann og bætir við að mikilvægast sé að allir séu að vinna með sömu gögnin og sitji þannig við sama borð.

Gunnar Haukur Kristinsson.
Gunnar Haukur Kristinsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Í dag er það þannig að það er misjafnt við hverja stofnanir og fyrirtæki eru með samninga. Sumir nota gervitunglagögn, aðrir drónagögn og sá þriðji gögn frá Loftmyndum. Þetta passar kannski ekki allt, þannig að núna verður þessi samhæfing á þessum algjöru grunngögnum sem samfélagið er að nota,” greinir Gunnar Haukur frá.

Að minnsta kosti fjórir sýnt áhuga

Landmælingar Íslands hættu árið 2000 að taka loftmyndir og fór verkefnið þá á markað. Fyrirtækið Loftmyndir hefur síðan þá sinnt þessu verkefni að mestu en með breyttri tækni hafa fleiri fyrirtæki komið inn með gervitunglamyndir og dróna.

Útboðið er sett þannig að upp að mögulegt er að fleiri en eitt fyrirtæki sinni loftmyndatökunni. Að minnsta kosti fjórir aðilar hafa sýnt verkefninu áhuga, bæði innlendir og erlendir, að sögn Gunnars Hauks.

Myndir teknar úr stórri flugvél

Verkefnið virkar þannig að loftmyndir af Íslandi eru teknar úr stórri flugvél með gati á botninum fyrir myndavél. Ekki er því um að ræða gervitunglamyndir eins og hjá Google.

Gerð er krafa um nákvæmni í staðsetningum og verða settir upp um 600 viðmiðunarpunktar sem verða notaðir til að stilla myndirnar af. „Við erum að leita að mikilli nákvæmni í staðsetningu og hæð,” segir hann.

Ský yfir Heklu.
Ský yfir Heklu. mbl.is/Sigurður Bogi

Aðspurður segir setti forstjórinn tæknina við myndatökuna ekki hafa breyst mikið með tímanum. Helst hafi flugvélarnar orðið hraðfleygari og myndavélarnar þoli meiri hraða.

Helstu áskorunina við myndatöku sem þessa á Íslandi segir Gunnar Haukur annars vegar vera hálendið og snjóinn sem er þar og hins vegar að á sumum stöðum er mjög oft skýjað. Nefnir hann Heklu og Hornstrandir sem dæmi. Einnig geti snjóað á síðarnefnda staðnum um mitt sumar.

Engin vandamál tengd persónuvernd

Hver mynd í útboðinu nær yfir 10 til 20 ferlíkómetra svæði, sem fer eftir tegund myndavélar. Myndirnar skarast aftur á móti mikið þannig að gert er ráð fyrir að taka þurfi tugþúsundir mynda í verkefninu.

Myndkortið og þær loftmyndir sem verða til verða öllum opnar og til frjálsra afnota, bæði hjá opinbera- og einkageiranum. Myndirnar verða í 25x25 cm upplausn um allt land og 10x10 cm upplausn á höfuðborgarsvæðinu og á stóru svæði í kringum Keflavíkurflugvöll.

Með þessari upplausn verður m.a. hægt að sjá veglínur gatna. Spurður út í möguleg vandamál tengd persónuvernd segir Gunnar Haukur þau ekki hafa komið upp í löndunum í kringum okkur.

„Þó að menn greini persónur og bíla mjög auðveldlega er erfitt að greina hver það er,” segir hann og nefnir að myndvélin horfi beint niður. Ekki sjáist heldur hliðar á húsum. Helst hafi þessi umræða komið upp varðandi drónamyndir þar sem upplausnin er meiri og um skámyndir að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert