Landsréttur hefur staðfest áframhaldandi gæsluvarðhald yfir karlmanni á þrítugsaldri sem grunaður er um að hafa orðið ungri konu á Selfossi að bana í seinasta mánuði.
Landsréttur hefur aflétt einangrun sem maðurinn hefur sætt og hann fær því að umgangast aðra fanga. Ríkisútvarpið greinir frá þessu.
Hefur ríkismiðillinn eftir Sveini Kristjáni Rúnarssyni, yfirlögregluþjóni lögreglunnar á Suðurlandi, að rannsókninni miði vel og að lögregla hafi einhverja mynd af því sem gerðist.
Mbl.is greindi frá því í síðustu viku að bráðabirgðaniðurstaða úr krufningu benti til manndráps.
Greint var frá því á mánudag að lögreglan biði lífsýna sem send voru til Svíþjóðar. Sveinn segir að það geti tekið einhvern tíma að fá niðurstöður úr þeim rannsóknum.
Hann segir að hátt í sextíu skýrslur hafa verið teknar í tengslum við rannsóknina en hann vill ekkert tjá sig um hvað hefur komið fram í þeim skýrslum.
Héraðsdómur Suðurlands framlengdi fyrir helgi gæsluvarðhald yfir manninum til 19. maí.