Ís­land brjóti reglur með at­vinnu­leysis­bóta­skerðingu

Höfuðstöðvar eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel.
Höfuðstöðvar eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel. Ljósmynd/Boubloub

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ísland brjóti reglur EES með skerðingu atvinnuleysisbóta á meðan á dvöl í öðru EES-ríki stendur. Möguleiki er á því að málið endi fyrir EFTA-dómstólnum.

Kvörtunin sem setti skoðunina af stað barst ESA í desember 2020 og snéri að því að einstaklingur á atvinnuleysisbótum ætlaði sér að sækja tannheilbrigðisþónustu í öðru EES-landi. Var einstaklingnum þá tjáð af Vinnumálastofnun að hann myndi hljóta skertar atvinnuleysisbætur sem miðuðust út frá lengd á dvöl hans í EES-ríkinu sem hann hygðist heimsækja.

ESA gerði athugasemdir við þetta og svöruðu íslensk stjórnvöld þeirri athugasemd með bréfi í febrúar 2021. Var málið svo rætt aftur á fundi ESA og íslenska ríkisins í júní 2022.

Þetta kemur fram í rökstuddu áliti ESA vegna málsins.

ESA sendi einnig formlegt áminningarbréf til Íslands vegna málsins í október 2022.

Reglurnar óréttmæt skerðing á grundvallarfrelsi

Í tilkynningu frá ESA vegna málsins gerir eftirlitið grein fyrir niðurstöðu sinni og kallar eftir að íslenskum reglum hvað varðar skerðingu atvinnuleysisbóta verði breytt þar sem þær brjóti reglur EES.

„ESA hefur komist að þeirri niðurstöðu að með því að skerða atvinnuleysisbætur vegna tímabundinnar dvalar í öðru EES-ríki í þeim tilgangi að sækja heilbrigðisþjónustu, hafi Ísland ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Skerðingin hefur áhrif á frjálst flæði þjónustu, sem felur í sér réttinn til að sækja heilbrigðisþjónustu í öðrum EES-ríkjum. Íslensku reglurnar, sem skerða atvinnuleysisbætur, jafnvel vegna stuttrar dvalar erlendis, feli því í sér óréttmæta skerðingu á þessu grundvallarfrelsi,” segir í tilkynningu ESA.

Þar segir einnig að rökstutt álit sé skref númer tvö er varðar formlegt brotaferli ESA gegn Íslandi. Stjórnvöld hérlendis hafa nú tvo mánuði til þess að koma sínum rökstuðningi og sjónarhorni til skila, en í kjölfarið mun ESA ákveða hvort vísa skuli málinu til EFTA-dómstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert