Hópur netþrjóta sem tengjast Rússlandi er talinn bera ábyrgð á netárásum og tilraunum til ólöglegrar upplýsingaöflunar á Íslandi. Þar á meðal er hópurinn talinn hafa reynt að brjótast inn í tölvukerfi lögreglunnar í fyrra.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um fjölþáttaógnir. Fjölþáttaógnir eru aðgerðir óvinveittra ríkja eða hópa þar sem fjölbreyttum aðferðum er beitt til að nýta sér kerfislæga veikleika lýðræðisríkja. Sem dæmi um slíkt má nefna netárásir, falsfréttir og íhlutun í lýðræðislega ferla og stofnanir. Í skýrslunni segir að hætta sé á slíkum aðgerðum af völdum Rússa hér á landi í ljósi þess að Rússar telja Ísland óvinveitt ríki.
Í skýrslunni segir að árið 2020 hafi 266 netárásir verið tilkynntar hjá CERT-IS, netöryggissveit íslenskra stjórnvalda, en atvikum hafi fjölgað jafnt og þétt og hafi verið fleiri en 700 á árinu 2022. Meðal alvarlegra net- og tölvuárása á Íslandi í fyrra sem nefndar eru í skýrslunni eru gagnaleki hjá Strætó, yfir 400 þúsund netárásir á Neyðarlínuna á einum sólarhring og netárás á Fréttablaðið í kjölfar gagnrýni á rússneska sendiráðið.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.