Mál manns sem braut gegn 16 stúlkum tekið fyrir

Hörður Éljagrímur Sigurjónsson í Landsrétti í morgun.
Hörður Éljagrímur Sigurjónsson í Landsrétti í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðalmeðferð í máli Harðar Éljagríms Sigurjónssonar, sem var dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn sextán stúlkum, hófst í Landsrétti í morgun.

Herði var fylgt inn í dómsalinn, en þinghaldið er lokað og fjölmiðlum því meinaður aðgangur. 

Stúlkurnar voru 11 til 15 ára þegar brotin áttu sér stað. Hörður, sem er fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður á sjötugsaldri, hafði samband við þær í gegnum einkaskilaboð á samfélagsmiðlinum Snapchat. Hann viðhafði við þær kynferðislegt tal og sendi sumum þeirra kynferðislegar myndir. Í tvö skipti reyndi hann að mæla sér mót við þær.

Hörður, lengst til vinstri, í Landsrétti í morgun.
Hörður, lengst til vinstri, í Landsrétti í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ákærði sendi brotaþolum skilaboð án þess að skeyta um það hver væri móttakandi þeirra eða um afleiðingar háttseminnar. Voru brot ákærða gróf. Ákærði á sér engar málsbætur, en hann hélt áfram brotum sínum þrátt fyrir að hafa í maí 2021 verið handtekinn og yfirheyrður vegna hluta brotanna. Þá hélt hann í mörgum tilvikum áfram að senda brotaþolum gróf kynferðisleg skilaboð eftir að þær sögðu honum aldur sinn. Er það mat dómsins að ásetningur ákærða til brotanna hefði verið mjög sterkur,” segir í dómi héraðsdóms frá því í júlí í fyrra.

Hörður, sem neitaði sök í málinu, var einnig dæmdur til að greiða brotaþolunum miskabætur. Sömuleiðis var hann dæmdur fyrir vörslu barnakláms og fyrir umferðarlagabrot. 

Aðalmeðferðinni í Landsrétti lýkur á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert