Sögufrægt hús Hótels Sögu hefur hlotið nýtt hlutverk og hýsir nú hundrað og ellefu stúdenta Háskóla Íslands. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vígði í dag nýjan stúdentagarð.
Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, héldu einnig stutt erindi á vígsluathöfninni. Undir lok athafnarinnar sló borgarstjóri á bjöllu og stúdentagarðurinn var þá formlega vígður.
Yfirbragð opnunarhófsins var í anda sögu hússins en hluta sögunnar er einnig komið til skila á skemmtilegan og listrænan máta á veggjum rýmisins.
FS og Fasteignir Háskóla Íslands festu kaup á Hótel Sögu í desember árið 2021. FS hefur að undanförnu unnið að því að breyta hluta hússins í íbúðir fyrir stúdenta en auk þeirra mun Háskóli Íslands flytja hluta starfsemi sinnar þangað.
Á síðustu þremur árum hefur FS fjölgað leigueiningum um sem nemur 423 og hefur nú um 1.600 leigueiningar til ráðstöfunar, en þar búa um 2.100 einstaklingar. FS segir markmið sitt vera að geta veitt 15% stúdentum við Háskóla Íslands húsnæði en nú stendur sú tala í um 12%.