„Búið að venja Íslenska neytendur á gífurlega hátt þjónustustig“

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, telur ekki ólíklegt að umræðan um …
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, telur ekki ólíklegt að umræðan um styttingu opnunartíma haldi áfram.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir umræðu um styttingu opnunartíma verslana koma reglulega upp í samfélaginu, en að hún virðist sífellt meira áberandi.

Hann segir marga þætti spila inn í aukna umræðu um málefnið og nefnir sem dæmi launakostnað, breytt viðskiptamynstur og breytta neysluhegðun. Þegar allt þetta komi saman sé þörfin fyrir langa opnunartíma minni. 

„Miðað við það sem við heyrum frá okkar félagsmönnum og miðað umræðuna eins og hún er búin að vera síðustu daga, þá kæmi það mér ekki á óvart að við munum heyra fleiri fréttir í þessa veru. “

Andrés ítrekar hins vegar að samtökin sjálf taki ekki afstöðu eða leggi neinar línur varðandi málefnið vegna samkeppnislaga, og sé það undir hverju og einu fyrirtæki að ákvarða eigin opnunartíma. 

Erfitt að fá fjölskyldufólk í verslunarstörf

Nýverið hafa verslunareigendur eins og Kristján Berg Ásgeirs­son, betur þekktur sem Fiskikóngurinn, og Pétur Thor Halldórsson, forstjóri S4S, tjáð sig um að stytta þurfi opnunartíma til að koma til móts við starfsfólk verslana og breyttar forsendur. 

Fiskikóngurinn sagði Íslendinga þurfa að breyta hugarfari sínu varðandi opnunartíma, því verslunarfólk eigi sér einnig líf, en hann tilkynnti einnig að hann muni loka klukkan 17 á föstudögum héðan í frá. 

Stytting framhaldskólanáms haft áhrif

Pétur Thor birti færslu á Facebook í dag, þar sem hann segir S4S lengi hafa barist fyrir því að opnunartími verslana fyrirtækisins í Kringlunni og Smáralind yrði styttur. Erfitt sé að fá fjölskyldufólk til að vinna í verslunum með langan opnunartíma og að ný kynslóð á vinnumarkaði lifi ekki til að vinna, heldur vinni til að lifa.

Andrés tekur undir það og segir almennt erfitt að finna hæfan starfskraft í verslanir og erfitt að ráða ungt fólk í sumarstörf. 

„Þetta er gjörbreytt frá því að maður var sjálfur ungur og vann eins lengi og hægt var til að hala inn sem mest laun, það er bara gjörbreytt. Unga fólkið hugsar allt öðruvísi.“ 

Þeir Andrés og Pétur eru einnig sammála um það að stytting framhaldskólanáms úr fjórum árum niður í þrjú hafi leitt til þess að nemendur hafi ekki tíma og löngun til að vinna í verslunar- og þjónustustörfum á sama hátt og áður.

Búið að venja Íslendinga á hátt þjónustustig

Aðspurður hvort fýsilegt sé að stytta opnunartíma, þegar fólk sé til dæmis vant matvöruverslunum allan sólarhringinn, svarar Andrés að hann sjái ekki fyrir sér að opnunartímar matvöruverslana styttist. „Það er búið að venja íslenska neytendur á gífurlega hátt þjónustustig.“ 

Hann segist frekar sjá fram á að þau fyrirtæki sem kjósi að stytta opnunartíma sinn, verði sérvöruverslanir eða verslanir sem einnig haldi út netverslunum.

Andrés telur ekki að stytting opnunartíma hafi áhrif á viðskipti enda færist þau aðeins til innan dagsins. Verslunarmenn séu að sjá það í auknum mæli að breyttir opnunartímar þýði ekki minnkandi veltu, og hvatinn fyrir löngum opnunartíma sé ekki til staðar á sama hátt lengur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert