Fækkun skjalasafna á landsvísu getur haft áhrif á uppbygingu ferðaþjónustu og margvíslegt menningarstarf. Þá er hætta á að menningarverðmæti glatist með lokun héraðsskjalasafna.
Þetta var meðal þess sem kom fram á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um fyrirkomulag og framtíð opinberrar skjalavörslu nú í morgun.
Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna boðaði til fundarins og lýsti yfir áhyggjum af þróun mála. Hún sagði héraðsskjalasöfn gegna mikilvægu hlutverki í gagnaöflun á viðkvæmum og persónulegum skjölum, vegna þess að traust ríki á milli starfsmanna skjalasafnanna og íbúa nærumhverfisins. Með lokun héraðsskjalasafna og sameiningu þess við Þjóðskjalasafn sé hætta á að þetta traust glatist. Líkur séu því á að Þjóðskjalasafni berist færri skjöl.
Það er áhyggjuefni, segir Jódís, enda kunni þannig hluti af íslenskri menningarsögu að glatast.
Fækkun skjalasafna hefur sömuleiðis bein og óbein áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustunnar og menningarstarf um land allt. Þetta segir Ragnheiður Kristjándsóttir, prófessor í sagnfræði. Hún undirstrikar mikilvægi þess að halda menningarstofnunum í héraði og í tengslum við nærsamfélagið.
„Ég held að hægt sé að vera sammála um að ef héraðsskjalasöfnum fækkar, þá verður það mikill skaði út frá menningarlegu sjónarmiði, en það mun líka hafa áhrif á atvinnulíf og viðskiptalíf í héruðunum,“ segir Ragnheiður.
Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður fullyrðir að varðveisla gagna sé betri í þeim sveitarfélögum þar sem starfandi eru héraðsskjalasöfn, en þar sem engin héraðsskjalasöfn eru starfandi. Hún ítrekar að fram undan sé krefjandi verkefni við sameiningu skjalasafnanna og færslu gagna yfir á stafrænt form. Þörf sé á sterkara eftirliti hvað viðkomi stafrænni varðveislu.
Hún segir þó ekki vera hættu á því að menningarverðmæti glatist þó að gögn séu flutt frá einu safni til annars.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir jákvætt að samfélagsumræða eigi sér stað um varðveislu íslenskrar menningar og sögu. Unnið sé að málefninu af fagmennsku en hún hafi þó skilning á því að héraðsskjalaverðir séu uggandi yfir þróuninni.
„Það er mikilvægt að veita þessum málaflokki þann áhuga og virðingu sem hann á skilið,“ segir Lilja.
Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að Hrefna teldi varðveislu gagna betri hjá héraðsskjalasöfnum en á Þjóðskjalasafninu. Hið rétta er að hún sagði varðveislu gagna betri þegar héraðsskjalasöfn væru til staðar en ekki. Hefur fréttin verið lagfærð miðað við það.