„Þetta var mikil áskorun en jafnframt skemmtilegt og mikill heiður að fá þetta verkefni. Ég er ánægð með útkomuna, þetta tókst vel,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir listakona, betur þekkt sem Sigga á Grund í Villingaholtshreppi.
Leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn í Hörpu í næstu viku og þangað koma mörg helstu fyrirmenni álfunnar. Á lokaathöfn fundarins mun Sigga og handverk hennar koma fyrir allra augu. Um er að ræða útskorna eftirgerð af fundarhamri Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra mun afhenda utanríkisráðherra Lettlands við hátíðlega athöfn.
Hefð er fyrir því að formennskuríki Evrópuráðsins gefi Evrópuráðinu gjöf við lok formennskutímabilsins. Gjöf Íslands til ráðherranefndar Evrópuráðsins verður eftirgerð af fundarhamri Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara, Ásmundarnautar, sem upprunalega var gefinn Sameinuðu þjóðunum árið 1952 í tilefni af því að nýjar höfuðstöðvar stofnunarinnar í New York voru teknar í notkun. Sigga á Grund skar hamarinn út og verður hann hér eftir notaður til að stýra fundum ráðherranefndarinnar.
Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.