„Við erum auðvitað himinlifandi“

Sólveig Anna Jónsdóttir er sátt með niðurstöðu kosninganna.
Sólveig Anna Jónsdóttir er sátt með niðurstöðu kosninganna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist hæstánægð með niðurstöður úr kosningu um úrsögn Eflingar úr Starfsgreinasambandi Íslands (SGS).

Ríkulegur meirihluti kaus með úrsögn úr sambandinu. 69,74% kjós­enda greiddu atkvæði með, 27,78% greiddu at­kvæði á móti og 2,47% tóku ekki af­stöðu. Kjörsókn var þó ekki hærri en 5%.

„Við erum auðvitað himinlifandi,“ segir Sólveig Anna í samtali við mbl.is. „Við fögnum því að félagsfólk sé sammála forystu félagsins um að hagsmunum Eflingar sé betur borgið utan Starfsgreinasambandsins.“

Gerir enga athugasemd við litla kjörsókn

Sólveig gerir engar athugasemdir kjörsóknina, sem var réttrúmlega 5%. Hún telur að þau sem tóku þátt í kosningunni hafi verið félagsmenn sem höfðu raunverulegan áhuga á málinu.

„Staðreyndin er sú að félagsfólk Eflingar veit að það er félagsfólk Eflingar. Það þekkir sitt félag. Það hefur kannski ekki haft mikinn áhuga á starfi Starfsgreinasambandsins. Tenging þeirra er við Eflingu. Ég held að það útskýri líka kjörsóknina,“ svarar hún þegar spurð út í kjörsóknina.

Hljóta beina aðild að ASÍ

Hún segir að Efling öðlist nú beina aðild að Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) sem hún telur vera góðar fréttir. Hún segir að það sé ekki til neins fyrir Eflingu að vera með aðild að ASÍ í gegnum landssamband sem félagið sæki enga þjónustu til. Hún segir að Efling sé því að mörgu leyti mjög sérstakt félag.

„Við erum þetta risastóra vinnuafl höfuðborgarsvæðisins. Við erum félag sem er með 50% félagsfólks af erlendum uppruna. Það er á þessum tímapunkti skynsamlegt að félagið geti sjálft hagað sínum áherslum og barist fyrir þeim málefnum sem félagið telur mikilvægast, ekki bara úti í samfélaginu, ekki bara við viðsemjendur heldur líka á vettvangi hreyfingarinnar,“ segir hún.

53 milljón króna sparnaður

Hún segir að Efling hafi í fyrra greitt ríflegar 53 milljónir til SGS. Sú fjárupphæð sem Efling hefur greitt á ári hverju mun núna skila sér í sjóði Eflingar. Hún segir einnig að Efling hafi borgað 106 milljónir til ASÍ á seinasta ári.

„Þessar 53 milljónir munu nú vera eftir hjá félaginu og nýtast við að byggja upp þjónustu við félagsfólk,“ segir hún að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert