„Þegar þetta er skrifað nú í morgunsárið er lægð stödd við Hvarf. Skil frá þessari lægð bárust yfir landið seint í gær og bylgja á skilunum þýðir aukinn kraft í rigninguna í nótt og framan af degi í dag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.
Þar kemur einnig fram að búast megi við talsverðri rigningu á sunnanverðu landinu. Með fylgi sunnan strekkingur, þó reyndar hafi lægt vestast á landinu.
Skilin færast í austurátt og á eftir skilunum tekur við suðvestan gola eða kaldi með skúrum. Þessi veðraskipti gerast fyrst vestast á landinu, en austanlands dregur úr vindi og léttir til undir kvöldið.
Búast má við vænum hitatölum í hnjúkaþey á norðaustanverðu landinu en loftmassinn yfir landinu er ágætlega hlýr. Má búast við 16 til 17 stigum þegar best lætur.
Á morgun nálgast lægð beint úr suðri. Það gengur í austan og norðaustan 5-13 m/s á með rigningu, fyrst um landið sunnanvert.
Hiti verður á bilinu 6 til 12 stig. Spár gera síðan ráð fyrir að miðja þessarar lægðar gangi til norðurs yfir austanvert landið. Það þýðir að á sunnudaginn snýst í norðlægari átt með úrkomu og kólnar í veðri.