„Get ekki annað en kært þetta“

Edda Björk Arnardóttir og þrír synir hennar af sjö börnum …
Edda Björk Arnardóttir og þrír synir hennar af sjö börnum í allt. „Dómstólarnir hér höfðu öll tækifæri til að neita þessari afhendingu vegna fjölda atriða,“ segir Edda sem kært hefur íslenskar dómsniðurstöður til Mannréttindadómstóls Evrópu. Ljósmynd/Aðsend

„Við kærum dóminn af því að hann er bara í grunninn rangur og við teljum okkur hafa þarna sterkt mál,“ segir Edda Björk Arnardóttir í samtali við mbl.is, sjö barna móðir sem staðið hefur í forræðisdeilu við barnsföður sinn sem búsettur er í Noregi. Hefur Edda nú kært niðurstöðu íslenskra dómstóla til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Edda og barnsfaðir hennar skildu vorið 2015 og dæmdi Héraðsdómur Nedre Telemark rétt fyrir jól 2017 að forræði þeirra yfir börnunum skyldi vera sameiginlegt en börnin skyldu áfram hafa lögheimili hjá föður sínum í Noregi.

Fór málið á síðari stigum fyrir dómstóla á Íslandi, Héraðsdóm Reykjavíkur og Landsrétt, og þá deilt um hvort þrjú barnanna yrðu tekin úr umráðum Eddu og afhent föður sínum í Noregi. Er þar um þrjá syni þeirra að ræða. Á báðum dómstigum féllu dómar svo að drengirnir skyldu fluttir til Noregs.

Telur Edda þá ráðstöfun brjóta gegn 8. grein mannréttindasáttmála Evrópu um rétt manns til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta.

Í hættu á að verða handtekin

„Dómstólarnir hér höfðu öll tækifæri til að neita þessari afhendingu vegna fjölda atriða, börnin eru til dæmis orðin það gömul að það á að taka tillit til vilja þeirra. Strákarnir eru orðnir það gamlir að þeir hafa nóg að segja sjálfir um sitt líf,“ segir Edda.

Á þetta hafi dómkvaddur matsmaður fallist en dómar þó fallið svo sem fyrr greinir og bendir Edda á fordæmi þess að Mannréttindadómstóllinn hafi snúið dómum í sambærilegum málum. „Það liggur fyrir kæra á hendur mér úti frá pabba barnanna, ég er í hættu á að vera handtekin ef ég fer til Noregs og get í raun ekki umgengist þá [synina] í Noregi þannig að það að senda þá til Noregs er algjört rof á umgengni,“ heldur hún áfram.

Telur Edda til þrjú þungavigtaratriði í málinu sem séu aðskilnaður frá systkinum og fjölskyldu, drengirnir neiti sjálfir að fara út og að lokum þá staðreynd að hún sjálf verði handtekin fari hún til Noregs og gæti þar með aldrei umgengist börn sín þar eins og ráð var fyrir gert í upphaflegum dómi norska héraðsdómsins.

„Við bara krossum fingur“

„Maður trúði einhvern veginn ekki öðru en að Landsréttur myndi snúa þessu [dómi Héraðsdóms Reykjavíkur] en það gerði hann ekki og Hæstiréttur fjallaði ekki um hann og þess vegna var sú ákvörðun tekin að senda þetta út,“ segir Edda og kveður í framhaldinu alveg undir hælinn lagt hvað gerist næst, það teljist langt frá því að vera sjálfgefið að dómstóllinn taki málið til meðferðar auk þess sem allt ferlið geti teygt sig býsna langt í tíma.

„Við bara krossum fingur en ég geri mér alveg ljóst að ef þeir taka málið fyrir geta liðið tvö-þrjú ár þar til við fáum dóm, en ég neita bara að það megi dæma svona í málum. Þótt það hjálpi mér eða börnunum mínum ekki núna þá finnst mér bara svo rosalega rangt hvernig þeir gera þetta að ég get ekki annað en kært þetta,“ segir móðirin.

„Bara þótt þetta geti þá hjálpað öðrum í framtíðinni því það koma fleiri svona mál. Nú er miklu meira um að fólk af erlendum uppruna flytji til Íslands, eignist maka hér, fari út aftur og öfugt, við förum út, hittum einhvern og komum svo heim. Þetta er farið að opnast miklu meira og það þurfa að vera miklu fastari og stífari verklagsreglur í svona málum en nú eru,“ vill Edda meina.

Dómari eigi ekki að styðjast við persónulegt mat

Mikilvægast kveður hún þó að taka tillit til vilja og langana barna. „Strákarnir mínir eru á þrettánda ári og þeir eiga að geta ráðið því hvar þeir búa. Þarna er ekki verið að miða við neitt, áður var miðað við tólf ára aldur, þá mátti barn ráða í svona málum, nú er hins vegar miðað við þroska barns og ástæður, hvað barnið segir í viðtalinu, matsmaður á að fara eftir því. Synir mínir segja að þeir vilji vera á Íslandi, hér eiga þeir stóra fjölskyldu sem þeir voru í algjörum slitum frá þegar þeir bjuggu úti,“ segir hún.

Kveðst hún að lokum vonast til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu fáist til að taka mál hennar og barnanna fyrir og að niðurstaða hans verði á öndverðum meiði við héraðsdóm og Landsrétt.

„Það er eitt að fara gegn vilja barnanna ef þau eru í hættu einhvers staðar en það er ekki inni í myndinni hérna. Við erum bæði metin jafn forsjárhæf af norskum matsmönnum og hæf til að sinna drengjunum, þarna á dómari ekki að fara eftir einhverju persónulegu mati, hann á bara að hlusta á börnin,“ segir Edda Björk Arnardóttir sem sent hefur kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu í kjölfar niðurstöðu íslenskra dómstóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert