Svíður undan orðræðu um verktaka

Engin tölfræði liggur fyrir um galla.
Engin tölfræði liggur fyrir um galla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri byggingafyrirtækisins Jáverks og formaður mannvirkjaráðs SI, segir mikinn söknuð af Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins. Ómögulegt sé að segja til um það hvort myglumál séu ný af nálinni. Hann segir að orðræða um verktaka í byggingageiranum svíði og oft sé bakari hengdur fyrir smið. 

Hann segir að enginn viti nákvæmlega hvers vegna svo mörg myglumál séu að koma upp. „Það eru svo margþættar ástæður á bak við myglumálin. Þetta snýr að hönnun, efnisvali, byggingarhraða, gæðum vinnubragða og auðvitað viðhaldi fasteigna," segir Gylfi.    

Hann segir að engin myglumál hafi komið upp í byggingum sem Jáverk hefur haft veg og vanda af að hanna og byggja. „Við höfum ekki lent í myglu enn þá með þau verkefni sem við höfum hannað og byggt,“ segir Gylfi.

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverk.
Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ráða engu í verktökunni 

Öðru gegni í málum þar sem Jáverk er í verktöku þar sem farið er eftir hönnun annarra. 

„Í þeim tilfellum ráðum við engu um hönnun og gerum bara það sem við erum beðin um þó við reynum að láta gott af okkur leiða. Við ráðum efnisnotkun og hönnun í okkar verkefnum en ekki þegar við tökum að okkur verktöku,“ segir Gylfi. Bendir hann á að í slíkum tilfellum sé hætt við því að bakari sé hengdur fyrir smið. 

Hann segir að fyrirtækið hafi sína eigin gæðastjórnun sem felur í sér val á byggingarefni og  loftþéttleikapróf, sem gefur til kynna leka ef einherjir eru. „Þetta er alls ekkert gert alls staðar þar sem við erum í verktöku,“ segir Gylfi. 

„Ég sakna RB“

Hann segir umræðu um myglumál vera margslungna. Ein tilgátan er sú að veðurfar hafi breyst með þeim hætti að á Íslandi sé meiri bleyta en áður. Hins vegar liggi engar rannsóknir og engin gögn fyrir sem hægt sé að grípa til þegar greina á vandann. 

„Hér eru séríslenskar aðstæður. Það eru ekki mörg lönd sem eru sífellt í rigningu og roki og því verðum við að gera meiri kröfur en aðrir t.a.m. hvað glugga varðar,“ segir Gylfi. 

Rakaskemmdir og mygla eru hvimleitt vandamál.
Rakaskemmdir og mygla eru hvimleitt vandamál. Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Hann segir skort á rannsóknum vera eina meginorsök þess að ekki hafi verið hægt að kortleggja vandann. „Ég sakna RB (Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins). Þó ég sé enginn sérstakur áhugamaður um opinberar stofnanir þá er magnað að miðað við alla þá fjárfestingu sem við leggjum í byggingariðnaðinn að vera ekki með neina rannsóknarstofu. Þetta eiginlega hálf galið,“ segir Gylfi. RB var svo til lagt niður þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands var lögð niður árið 2019. 

Tölfræði um galla er ekki til

Hann telur að umræða um fúsk og óvandvirkni byggingaraðila til að spara peninga eigi ekki við rök að styðjast. „Ég held í einlægni að þetta sé ekki svona. Sú umræða er að mínu viti ekki rétt. Kannski er myglan ekkert ný. Kannski vorum við bara að finna hana. Það hafa engar rannsóknir verið gerðar á þessu. Tölfræði um galla er ekki til. Við þekkjum einhver dæmi sem eru ljót og við alhæfum út frá þeim. Með þessu er ég ekki að segja að gallar séu færri eða fleiri en áður. Ég er bara að segja að við getum ekki alhæft um það,“ segir Gylfi. 

Er erfitt að sitja undir umræðu um fúsk þar sem allir eru settir undir sama hatt?

„Það eina sem mér svíður í umræðunni er þegar allt sem er vont í byggingariðnaði heitir verktaki. Stundum er ég verktaki og verð bara að gera það sem aðrir segja mér að gera. Hvort sem það eru sveitarfélög, ríki, þróunarfélag eða hver sem það er sem ræður yfir hönnuninni. Stundum er eitthvað í hönnuninni sem maður hefði kosið að gera öðruvísi sjálfur en þú ræður bara ekkert við þetta í sumum tilfellum,“ segir Gylfi. 

Gísli telur að orðræða sé óvægin í garð verktaka.
Gísli telur að orðræða sé óvægin í garð verktaka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir að verktakar geri þó mistök eins og aðrir. „En á meðan við erum föst í þessari orðræðu þá erum við föst í framþróun þessara mála. Það vantar rannsóknir,“ segir Gylfi.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert