„Ljóst er að þetta er stærsti viðburður sem við höfum tekist á við hingað til og þjálfunin er í takt við það. Við setjum alla okkar krafta í að geta skilað þessu sómasamlega af okkur,“ segir Arnþór Davíðsson, yfirþjálfari í sérsveit ríkislögreglustjóra, í samtali við Morgunblaðið um viðfangsefnin sem fram undan eru í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík 16. og 17. maí.
Til að auka færni íslenskra lögreglumanna við að gæta öryggis þjóðarleiðtoga og almennings hafa þeir verið í stífum æfingabúðum ef þannig mætti að orði komast.
„Lögreglan býr yfir ákveðinni grunnþjálfun til að takast á við dagleg lögreglustörf í landinu og hefur sérsveitin séð um aðra þætti. Landslagið hefur breyst og álagið á sérsveitina hefur aukist. Í löndunum í kringum okkur eru sérþjálfaðar deildir sem sjá um verkefni í líkingu við leiðtogafundi. Ef við horfum til framtíðar væri kannski eðlilegt framfaraskref að gera það einnig á Íslandi.“
Ákvörðunin um að halda fundinn á Íslandi var kynnt í nóvember og því höfðu yfirvöld ekki ýkja langan tíma til undirbúnings miðað við umfangið sem fylgir komu ýmissa stjórnmálaleiðtoga til landsins.
„Mjög erfitt er að fara í gegnum þjálfun sem þessa á skömmum tíma. Við gáfum okkur viku í að þjálfa þjálfarana í skotþjálfun, akstursþjálfun, almennri þekkingu á faginu og gáfum þeim innsýn í öryggisgæslukerfin. Skotprófin voru frábrugðin hefðbundnum skotprófum að því leyti að þau tóku mið af umhverfinu sem lögreglan mun starfa í vegna fundarins. Þar eru lögreglumenn í öðrum klæðnaði en venjulega auk þess sem streita og spenna er á öðru stigi en alla jafna. Hlutverk þjálfaranna er svo að fara með þessa þekkingu út í embættin og þjálfa þá sem hafa verið valdir til að sinna verkefnum í kringum viðburðinn.“
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.