Tillaga um vantraust misskilningur

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra braut ekki þingskapalög samkvæmt álitsgerð Lagastofnunar HÍ.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra braut ekki þingskapalög samkvæmt álitsgerð Lagastofnunar HÍ. Samsett mynd

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra braut ekki þingskapalög með ákvörðun um að Útlendingastofnun tæki allar umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar fyrir í tímaröð, bæði umsóknir til Alþingis og Útlendingastofnunar. Þetta kemur fram í álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands um hvernig túlka bæri lögin, sem unnin var að beiðni dómsmálaráðuneytisins.

„Þetta er mjög afgerandi niðurstaða,“ segir Jón í samtali við Morgunblaðið um álitsgerðina og segir hana staðfesta að skilningur dómsmálaráðuneytisins hafi verið réttur og stjórnarandstaðan hafi farið vill vegar um ákvæði þingskapa hvað varðar upplýsingarétt þingnefnda.

Í lok mars lagði hluti stjórnarandstöðunnar fram vantrauststillögu á hendur ráðherra, þar sem þingmenn hennar sögðu Jón hafa með þessari ákvörðun gerst brotlegur við 51. gr. þingskapalaga, hún fæli í sér skyldur framkvæmdavaldsins til þess að sinna upplýsingabeiðnum úr þinginu.

Áður höfðu umsóknir til Alþingis notið forgangs í umfjöllun stofnunarinnar, en þegar þeim tók að fjölga mikið hafði það áhrif á hversu skjótt almennar umsóknir fengust afgreiddar. Var þá ákveðið að fjallað yrði um allar umsóknir um ríkisborgararétt í þeirri röð sem þær bærust.

Aðgangur, ekki öflun gagna

Í álitsgerð Lagastofnunar HÍ er vendilega farið yfir umrædda lagagrein, en í henni er kveðið á um að þingnefndir, jafnvel aðeins þrír þingmenn þeirra, geti krafist aðgangs að gögnum úr stjórnkerfinu eða að teknar verði saman upplýsingar úr þeim eða yfirlit þeirra og skal orðið við því innan sjö daga.

Lagastofnun segir að þar sé ljóslega átt við fyrirliggjandi gögn, sem hið opinbera búi þegar yfir. Það megi bæði skilja af orðanna hljóðan, hinum skamma fresti og samanburði við önnur ákvæði þingskapa- og upplýsingalaga. Í þeim felist ekki fyrirmæli um að aflað sé nýrra gagna fyrir þingið, enda sé ákvæðið ætlað til þess að efla eftirlitshlutverk þess gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Hvað varðar umfjöllun Alþingis um umsóknir um ríkisborgararétt, þá sé það hluti af löggjafarstarfi þingsins, þar sem ekki reyni á eftirlitshlutverkið gagnvart framkvæmdarvaldinu.

„Þannig verður ekki ráðið af orðalagi, lögskýringargögnum, forsögu og markmiðum ákvæðisins eða öðrum ákvæðum þingskapalaga að í réttinum til að fara fram á að upplýsingar verði „teknar saman“ felist að stjórnvald skuli afla upplýsinga og leggja mat á þær í formi umsagna. Enn síður verður ályktað að upplýsingaréttinum verði beitt til að knýja á um að stjórnvöld sinni lögbundinni skyldu sinni til að veita umsögn samkvæmt öðrum lögum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert