Samband íslenskra sveitarfélaga (SNS) skorar á forystu BSRB að fara með mál sitt í kjaradeilu félaganna fyrir dóm og óska eftir flýtimeðferð þess. SNS segir að ef dómsniðurstaða sýni fram á brot sveitafélaga þá verða laun starfsfólks leiðrétt.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá SNS en þar segir að BSRB krefjist leiðréttingar á launalið í útrunnum kjarasamningi sem þegar sé að fullu efndur af hálfu sveitafélaganna.
SNS hafi einnig fullyrt um að sveitarfélög brjóti lög en SNS hefur alfarið hafnað þeim fullyrðingum.
BSRB hafi hafnað tilboði sem tryggði launahækkun í janúar
Sambandið segir að BSRB hafi í kjaraviðræðum árið 2020 hafnað fjórum tilboðum sem tryggt hefðu félagsmönnum þeirra launahækkanir frá 1. janúar. Þar á meðal hafnað tilboði sem hefði tryggt launahækkun í janúar 2023.
„Fram að undirskrift kjarasamnings bæjarstarfsmannafélaganna þann 8. mars 2020 reyndi formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga að telja formanni samninganefndar bæjarstarfsmannafélaga hughvarf og benti henni á, m.a. í fyrirliggjandi tölvupóstum, að höfnun þeirra á tilboði um sama samning og Starfsgreinasambandið hafði þegar gert við Samband íslenskra sveitarfélaga yrði til þess að bæjarstarfsmenn innan BSRB yrðu af launahækkunum sem Starfsgreinasambandið hafði þegar samið um frá 1. janúar 2023,“ segir í tilkynningunni.
Tilboð liggur á borðinu
SNS segir að kjarasamningurinn hafi verið undirritaður af samninganefndum beggja aðila og, samþykktur í atkvæðagreiðslu félagsmanna og af stjórn sambandsins. Sveitarfélögin hafi að fullu efnt þann kjarasamning sem gerður var við bæjarstarfsmannafélögin árið 2020.
Auk þess kemur fram að þegar kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara í vor hafi tilboð frá SNS legið á borði BSBR um 12 mánaða kjarasamning þar sem grunnlaun bæjarstarfsmanna myndu hækka um 8,78% frá 1. apríl 2023.