Vill koma á fót þekkingarmiðstöð um ME sjúkdóminn

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mbl.is/Arnþór

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur falið Sjúkrahúsinu á Akureyri í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Norðurlands, að koma á fót þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð um ME sjúkdóminn. 

Áformuð stofnun þekkingar- og ráðgjafarmiðstöðvar um ME sjúkdóminn hefur fengið vinnuheitið Akureyrarklíníkin. Á stofnun hennar m.a. að bæta skilning á ME og skyldum sjúkdómum og stuðla að bættri þjónustu við sjúklinga.

Þetta kemur fram í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.

Langvarandi vöðvaverkir og bólgur

Sjúkdómurinn veldur langvarandi vöðvaverkjum og bólgum í heila eða mænu. Vitað er að ýmsar sýkingar geta valdið ME sjúkdómnum. Hluti sjúklinga sem veiktust af Akureyrarveikinni þegar hún geisaði fyrir 75 árum þróaði með sér ME. Þá benda rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar sem og erlendar rannsóknir, til þess að um 1% þeirra sem sýkjast af Covid-19 þrói með sér langvarandi sjúkdómseinkenni sem líkjast einkennum ME sjúkdómsins.

„Fjölmörgum faröldrum eins og Akureyrarveikinni hefur verið lýst í heiminum þar sem sýkill hefur ekki fundist og hluti þeirra sem veikist þróar með sér langvarandi sjúkdómseinkenni líkt og ME.

Sé tekið mið af erlendum tölum má ætla að hér á landi séu eitt- til tvö þúsund einstaklingar með sjúkdóminn en ljóst er að sjúkdómurinn er vangreindur. Sjúkdómsbyrði margra ME- sjúklinga er þung. Brýn þörf er á að auka þekkingu á sjúkdómnum og bæta þjónustu við þá sem við hann glíma,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert