Ísak Harðarson skáld lést á krabbameinsdeild Landspítalans að morgni föstudagsins 12. maí eftir stutt veikindi.
Ísak fæddist í Reykjavík þann 11. ágúst árið 1956. Hann lauk stúdentsprófi 1977 og stundaði síðan nám við Kennaraháskóla Íslands auk íslenskunáms við Háskóla Íslands.
Ísak sendi frá sér sína fyrstu bók, ljóðabókina „Þriggja orða nafn“, árið 1982 og síðan hefur hann gefið út fjölda ljóðabóka, smásagnasöfn, skáldsögu og endurminningabók auk þess sem hann var mikilvirkur þýðandi.
Ísak hlaut rithöfundaverðlaun Ríkisútvarpsins árið 1994 og hann var tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2011 fyrir bók sína „Rennur upp um nótt“.
Ísak var þekktur fyrir sterkt og frumlegt myndmál í ljóðum sínum og sterkan trúarþráð en hann virtist ofurnæmur fyrir straumum samtímans. Þótt viðfangsefnin hafi oft verið alvarleg og myrk þá voru verk hans oftar en ekki full af hugmyndaauðgi, leikgleði og húmor.
Ísak lætur eftir sig tvær dætur sem hann eignaðist með Ólöfu Garðarsdóttur. Katla (fædd 1984) er gift Guðlaugi Hávarðssyni og þau eiga Styrkár fæddan 2011. Guðrúnu Heiður (fædd 1989) er gift Sveini Steinari Benediktssyni og þau eiga Dýrfinnu fædda 2014.
Ísak og Ólöf slitu samvistir árið 1993. Útför Ísaks verður auglýst síðar.
Hér að neðan má sjá tvö ljóð eftir Ísak.