Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur þungar áhyggjur af hópi hjúkrunarfræðinga sem leita til annarra starfa vegna aukins álags. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var einróma á aðalfundi félagsins á föstudag.
Félagið skorar á stjórnvöld að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga með því að tryggja mönnunarviðmið, bæta vinnuaðstöðu og öryggi á vinnustað.
Tæplega 67% hjúkrunarfræðinga hafa horft til þess að hætta í starfi á síðustu 2 árum og nefna flestir starfstengt álag, að því er segir í tilkynningu frá félaginu. En hætt er að öryggi sjúklinga, hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks verði stefnt í hættu ef stjórnvöld bregðast ekki við ákalli hjúkrunarfræðinga.
Félagið skorar einnig á stjórnvöld að leiðrétta kjör hjúkrunarfræðinga til samræmis við aðra háskólamenntaða sérfræðinga.
Núverandi kjarasamningur rennur út innan árs og segir félagið nauðsynlegt að horfa til niðurstöðu gerðardóms frá 2020 um að stéttin sé vanmetin til launa miðað við ábyrgð í starfi, við gerð nýs kjarasamnings.
Félagið segir samkeppnishæf laun á vinnumarkaði lykilatriði til að auðvelda nýliðun og sporna við því að hjúkrunarfræðingar leiti í önnur störf.