Hornfirðingurinn Brynjar Eymundsson, eigandi veitingastaðarins Hafnarinnar í Reykjavík frá 2010, stóð vart út úr hnefa þegar hann vildi verða kokkur og draumurinn rættist um fermingaraldurinn. „Ég fór fyrst á sjóinn haustið 1967, byrjaði svo á fullu árið eftir og hef síðan verið í matreiðslunni fyrir utan veturinn í Reykholti 1970 til 1971.“
Brynjar segist snemma hafa fengið áhuga á matreiðslu og fylgst grannt með móður sinni við matseldina. „Eins og flestir krakkar á Höfn byrjaði ég að gella sjö eða átta ára, fór úr skólanum til að bjarga verðmætum og vann öll sumur í skreiðinni eða við að snúa saltfiski nema þegar ég var í sveit.“ Eldamennskan hafi ekki verið flókin á bátunum og helst hafi það verið aldurinn sem flæktist fyrir í fyrstu. „Ég bauð gjarnan upp á sama matinn; saltkjöt og soðkjöt, kjötbollur og svo framvegis.“ Fiskur hafi sjaldan verið á borðum enda ekki vinsæll. „Eitt sinn vorum við á landleið og stímið fór yfir matartímann. Ég var skammaður fyrir að elda ekki máltíð og fékk að heyra það. „Helvítis kokkurinn nennir ekki að elda,“ sögðu þeir og þegar ég svaraði að kosturinn væri búinn var mér bent á að það væru 70 tonn af fiski í bátnum!“
Eftir nám á Hótel Esju og útskrift úr Hótel- og veitingaskóla Íslands 1976 var Brynjar meðal annars matreiðslu- og veitingamaður í Félagsheimili Kópavogs í sex ár og yfirkokkur á Gullna hananum 1983 til 1988. Á þessum tíma varð hann Norðurlandameistari með kokkalandsliðinu og fór tvisvar til Norður-Kóreu, þar sem hann matreiddi góðgæti fyrir þarlenda ráðamenn.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út miðvikudaginn 10. maí.