Vínarbrauðsbakari í áfalli

Bíll keyrði inn í bakarí Snorra Stefánssonar á Sauðárkrókur.
Bíll keyrði inn í bakarí Snorra Stefánssonar á Sauðárkrókur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er ennþá að melta þetta, ég er ennþá í sjokki,“ segir Snorri Stefánsson, bakari og eigandi Sauðárkróksbakarís, en bíll keyrði inn í bakarí hans á fimmta tímanum í morgun. 

Snorri var önnum kafinn við bakstur á vínarbrauði þegar stórt högg dundi á bakaríið, en honum varð verulega bylt við þegar hann  sá að bifreið hafði verið ekið inni í afgreiðslu bakarísins. 

Þakkar fyrir að hafa ekki fengið sér kaffi

Snorri kveðst hafa verið einn við störf þegar bifreiðin keyrði inn í húsið, en segist heill á húfi þó hann sé enn að jafna sig. Hann þakkar fyrir að hafa verið í vinnslunni þegar óhappið átti sér stað, en bíllinn keyrði inn í afgreiðsluna. 

„Ef ég hefði fengið mér kaffi á þessum tímapunkti þá væri ég ekki að tala við þig,“ segir Snorri og segist enn vera í talsverðu áfalli. 

Ökumaðurinn stakk af frá vettvangi að sögn Snorra, en hann kveðst ekki þekkja til hans. Snorri segir einhverjar sögusagnir vera á flakki um slysið og um ökumanninn, en hann segir það ekki sitt að dæma heldur lögreglu að rannsaka. 

Bíllinn keyrði inn í afgreiðslu Sauðárkróksbakarís.
Bíllinn keyrði inn í afgreiðslu Sauðárkróksbakarís. Ljósmynd/Aðsend

Bullandi tekjumissir

Mikið tjón hlaust af óhappinu en vatnsleiðslur rofnuðu í húsinu sem olli flóðatjóni og segir Snorri rafmagnið einnig hafa slegið út. Hann segir vinnsluna og ofnana hins vegar ekki hafa orðið fyrir tjóni og hann geti því haldið bakstri áfram. 

„En það er bullandi tekjumissir af þessu, helmingurinn af tekjunum sem bakaríið hefur er í gegnum afgreiðsluna,“ segir Snorri en bætir við að þau muni gera sitt besta til að finna lausnir til að halda áfram rekstri. „Við vinnum í lausnum, ekki í vandamálum.“

„Þetta var svekkjandi, þetta var ömurlegt. Þetta var ekki til þess að gera daginn minn betri. ég skal alveg viðurkenna það. En það slasaðist engin og það dó engin. Það er það góða við þetta.“ segir Snorri. 

Mikil samheldni meðal bæjarbúa

Snorri kveðst snortin yfir samheldni samfélagsins á Sauðárkróki og segir símann varla hafa stoppað síðan í morgun, þar sem nágrannar og bæjarbúar keppist við að bjóða fram aðstoð sína.

Hann segir lítið annað í stöðunni en að vera bjartsýnn og leita lausna til að halda áfram.  

„Þetta reddast, hafðu ekki áhyggjur af því“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert