Árekstur tafði fylgdaraksturinn ekki

Vopnaðir lögreglumenn við Hörpu í dag.
Vopnaðir lögreglumenn við Hörpu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 100 erlendir lögreglumenn frá Noregi, Danmörku og Finnlandi eru staddir hérlendis í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins. Þeir eru undir stjórn ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðbogarsvæðinu og ber stór hluti þeirra vopn. Mismikil öryggisgæsla er í kringum þjóðarleiðtogana og fer stig öryggisgæslunnar eftir greiningu ríkislögreglustjóra. 

Sérhæfðir löggæslumenn 

Um þriðjungur erlendu löggæslumannanna sinnir umferðarfylgd í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu en tveir þriðjuhlutar þeirra eru undir ríkislögreglustjóra. Þetta herma heimildir mbl.is.

Sigríðar Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóri, vildi ekki staðfesta þennan fjölda erlendra lögreglumanna en sagði að þeir erlendu sérfræðingar sem fengnir hafi verið til landsins sinni sérhæfðum verkefnum. 

„Þetta eru mest sérhæfðir löggæslumenn. Allir eru undir okkar stjórn og einhverjir eru vopnaðir. Lögreglan hefur verið samstíga og sterk í þessum undirbúningi. Við finnum fyrir mikilli jákvæðni meðal okkar fólks fyrir þessu verkefni,“ segir Sigríður Björk.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfir 10 þúsund þjálfunarstundir 

Hún segir að unnið sé eftir skipulagi sem var sex mánuði í undirbúningi.

„Við erum búin að vera mánuðum saman að skipuleggja, undirbúa og fara yfir mögulegar sviðsmyndir. Að baki liggja meira 10 þúsund klukkustundir í þjálfun lögreglumanna. Þar hefur verið kennd lífvarðargæsla, meðferð skotvopna og neyðarakstur svo eitthvað sé nefnt," segir Sigríður.

Árekstur í fylgdarakstri leiðtoga

Hún segir að gert sé ráð fyrir ýmsum ófyrirséðum uppákomum í þjálfuninni. Meðal annars reyndi á hana þegar einn þjóðarleiðtoga var í fylgdarakstri. „Sem dæmi kom upp árekstur á sama tíma og fylgd var á Keflavíkurflugvelli,“ segir Sigríður.

Áreksturinn hafi þó ekki valdið töf. „Við vorum búin að æfa það ef einhver hindrun kemur upp á leiðinni sem svo raungerðist. Við vorum búin að gefa okkur þá sviðsmynd og þetta gekk smurt fyrir sig,“ segir Sigríður Björk.

Mikil öryggisgæsla verður á fundinum.
Mikil öryggisgæsla verður á fundinum. mbl.is/Árni Sæberg

Hærra öryggisstig varðandi suma leiðtoga 

Íslenskir lögreglumenn sinna lífvarðarstörfum en einnig eru gestir fundarins með sína öryggisverði. Sigríður segir greiningadeildin hafi metið málin þannig að öryggisstig sé hærra hvað varðar vissa þjóðarleiðtoga. „Það er hærra öryggismat varðandi suma af þeim þjóðarleiðtogum sem eru að koma hingað til lands en við eigum að venjast. Við berum ábyrgð á þeim og öryggismatið endurspeglar það varðandi hvern og einn," segir Sigríður Björk.

Hún segir að engir eiginlegir leyniþjónustumenn verði á vegum Íslands en gefur aðspurð í skyn að erlendir leyniþjónustumenn gætu verið á fundinum. „Við erum í samstarfi við alls kyns aðila og munum þá væntanlega fá nauðsynlegar upplýsingar ef til þess kemur,“ segir Sigríður Björk.

Leiðtogar fá fylgdarakstur á leiðtogafundinn.
Leiðtogar fá fylgdarakstur á leiðtogafundinn. Ljósmynd/Embætti ríkislögreglustjóra
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka