Jaðrar við að taka sjúkrabíl úr sambandi

Þorvar Hafsteinsson, formaður Heimilis og skóla, landsamtaka foreldra, hefur áhyggjur …
Þorvar Hafsteinsson, formaður Heimilis og skóla, landsamtaka foreldra, hefur áhyggjur af verkföllum BSRB. Samsett mynd

„Það eru einstaklingar sem mega alls ekki við þessu og það er áhyggjuefni,“ segir Þorvar Hafsteinsson, formaður Heimilis og skóla, um verkfall félagsmanna BSRB í skólum.

Hann segir áhyggjufulla foreldra hafa haft samband við samtökin en margir þurftu að vera heima með börnunum vegna skerts starfs í grunn- og leikskólum.

Bitnar á börnum með sérþarfir frá fyrsta degi

Þorvar segir það í sjálfu sér ekki breyta miklu fyrir foreldra að þurfa að vera heima í einn til tvo daga á meðan á verkfalli stendur, en að raunin sé önnur fyrir börn sem þurfi stuðningsfulltrúa. 

Ástandið muni vissulega bitna á öllum börnum ef það dregst á langinn, en að verkfallið bitni á börnum með sérþarfir strax á fyrsta degi. 

„Fyrir þessi börn, þá hefur allt svona rót margföld áhrif og þetta er verulegt áhyggjuefni,“ segir Þorvar. 

Undanþágubeiðnum hafnað

Þorvar segist vita til þess að undanþágubeiðnir hafi verið sendar til BSRB varðandi stuðningsfulltrúa barna sem virkilega þurfi á stuðningi að halda en að þeim hafi verið hafnað. 

„Ég hefði persónulega viljað sjá að þessi þjónusta væri ekki skert að fullu eins og hún er, og væri með einhverjum undanþágum. Alla vega í verstu tilfellum þannig að það væri hægt að koma til móts við þessi börn.“

Erfitt þegar tveir deila

Hann kveðst hafa skilning á hagsmunabaráttunni og að erfitt sé þegar tveir deila. „Maður getur sett sig í spor þeirra sem eru að berjast fyrir bættum kjörum og þetta er auðvitað eitt af þeim verkefnum sem þau hafa.“ 

Þá segist Þorvar ekki trúa öðru en að báðir aðilar setjist brátt niður og semji um kjör.

„En að sama skapi þá eru þarna einstaklingar sem þetta bitnar á. Mér finnst þetta næstum því jaðra við það að sjúkrabíll sé tekinn úr sambandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert