Skert þjónusta við börn með sérþarfir

Verkfall BSRB hefur haft áhrif á starf í leik- og …
Verkfall BSRB hefur haft áhrif á starf í leik- og grunnskólum og frístundaheimilum Kópa­vogs, Garðabæj­ar, Mos­fells­bæj­ar og Seltjarn­ar­ness. Samsett mynd

Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir, aðstoðarskólastjóri í Hörðuvallaskóla í Kópavogi, segir verkfall félaga í BSRB hafa haft talsverð áhrif á starfsemi skólans, en hann er stærsti grunnskóli landsins. 

„Hjá okkur eru þetta ritari, húsvörður, stuðningsfulltrúar og starfsfólk frístundar og það eru öll störf hjá okkur alveg jafn mikilvæg, sama við hvað fólk vinnur. Þannig vissulega hefur þetta áhrif hjá okkur.“

Hún segir frístund skólans lokaða eftir hádegi í dag, þar sem ekki sé nægilegt starfsfólk til að manna hana. Skriftstofa skólans er lokuð í verkfallinu og minna eftirlit er með börnunum í frímínútum. 

Verkfall BSRB hefur haft víðtæk áhrif á starfsemi leik- og grunnskóla og frístundaheimila í dag og mun halda áfram á morgun. Fleiri verkföll verða boðuð í framhaldinu ef ekki næst samkomulag á milli BSRB og SNS. 

Skert þjónusta til barna með sérþarfir

Sigrún segir þjónustu við börn sem þurfi aukinn stuðning, einnig skerta vegna verkfallsins. Hún segir engin börn hafa þurft að vera heima, en að skólinn hafi verið í sambandi við nokkra foreldra um hvað væri best í stöðunni. Börnin hafi hins vegar þurft að fara heim eftir hádegi vegna lokunnar frístundarinnar

Aðspurð hver viðbrögð foreldra hafi verið, segir Sigrún þau almennt jákvæð. „Fólk bara sýnir þessu skilning, maður finnur alveg fyrir stuðning við þau sem eru í baráttunni, en vissulega hefur þetta mikil áhrif á heimilin.“

Öllum undanþágubeiðnum hafnað

Hún segir undanþágubeiðnir um stuðningsfulltrúa við viss börn hafi verið sendar til BSRB en að þeim hafi öllum verið hafnað.

„Þetta náttúrulega hefur áhrif á þá sem þurfa stuðning, rútínan þeirra verður öðruvísi og það eru ekkert öll börn sem geta það. “Einn og einn dagur sleppur til en ef þetta fer að draga á langinn, þá mun þetta vissulega hafa áhrif.“ segir Sigrún. 

„Maður bara vonar að deilan leysist sem fyrst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert