Verkfall félagsmanna BSRB hófst í dag og stendur til miðnættis á morgun. Sonja Ýr Þorbergsdóttir segir samstöðu ríka innan félagsins og að foreldrar og stjórnendur hafi sýnt ríkan samhug.
Um er að ræða verkföll 977 starfsmanna á leik- og grunnskólum og frístundaheimilum Kópavogs, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. Með verkfallinu fer BSRB-fólk fram a launaleiðréttingu en félagsmenn SNS hlutu launahækkun þremur mánuðum á undan BSRB-fólki.
„Við höfum fengið ríkar baráttukveðjur, enda vita þau að þetta eru ómissandi störf.“ segir Sonja um viðbrögð foreldra.
Hún segir fjölda BSRB-fólks hafa mætt í svo til gerðar verkfallsmiðstöðvar hjá stéttarfélögunum í morgun og haldi á vinnustaði til að sinna verkfallsvörslu.
Sonja kveðst ekki hafa nákvæmar upplýsingar um hvaða stofnanir hafi þurft að skerða skólastarf mest vegna verkfallsins, en segist vita til þess að leikskólar hafi þurft að loka deildum og börn hafi þurft að vera heima hjá foreldrum sínum. Hún kveðst þó finna fyrir miklum stuðningi foreldra.
„Ég held þau viti sem er að þetta eru hvað lægst launuð á vinnumarkaði og það myndi enginn grípa til verkfallsaðgerða nema að vera búin að reyna allar aðrar leiðir.“
Félagsmenn BSRB eru að mestu ófaglærðir og á verkfallið því meðal annars við um stuðningsfulltrúa og einstaklinga sem annast liðveislu barna með sérþarfir og lærdómsörðugleika.
„Þetta er stór hluti barna í leikskólum sem þarf að vera heima, vegna þess að okkar fólk er oftast nær í meirihluta starfsfólks leikskóla.“
Verkfallið á, eins og áður er nefnt, að standa yfir í dag og á morgun, en störf verða einnig lögð niður í næstu viku og bætast þá fleiri sveitarfélög. Í vikunni á eftir munu bætast við enn fleiri sveitarfélög og sundlaugarstarfsmenn bætast þá einnig í hópinn.
Samband íslenskra sveitarfélaga (SNS) hefur skorað á forystu BSRB að fara með málið fyrir dóm, en þau hyggjast ekki leiðrétta laun starfsmanna nema að dómsniðurstaða sýni fram á brot sveitafélaga.
Sonja segir BSRB-fólk telja að þeim sé mismunað um laun og ætli hvorki að láta það yfir sig ganga, né bíða.
„Þau hafa tekið þá ákvörðun að þau ætla ekki að bíða í eitt til tvö ár, sem að dómstólaleiðin tekur, eftir leiðréttingu á þessu misrétti heldur ætla að grípa til aðgerða til að knýja fram sínar kröfur.“