Vopnaleit í innanlandsflugi næstu tvo daga

Á meðan að leiðtogafundi Evrópuráðs stendur frá klukkan tvö á …
Á meðan að leiðtogafundi Evrópuráðs stendur frá klukkan tvö á morgun, þriðjudag, til klukkan fjögur á miðvikudaginn verður leitað að vopnum í öllu innanlandsflugi til og frá Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Leitað verður að vopnum á öllum farþegum í innanlandsflugi til og frá Reykjavík á meðan leiðtogafundi Evrópuráðs stendur. RÚV greindi fyrst frá.

„Á meðan á fundinum stendur frá klukkan tvö á morgun til klukkan fjögur á miðvikudaginn verður leitað að vopnum í öllu innanlandsflugi til og frá Reykjavík,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri innanlandsflugvalla Isavia, í samtali við mbl.is.

„Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem við höfum þurft að gera þetta. Við erum með undanþágu frá vopnaleit í innanlandsflugi, ein allra Norðurlanda og ein Evrópuþjóða. Þetta kannski sýnir hvað það er mikilvægt að halda fast í þessa undanþágu. Þetta lengir ferðatíma fólks og það þarf að mæta fyrr á flugvellina,“ segir Sigrún.

„Þetta eru farþegar og handfarangur sem verða skimuð. Ég biðla til fólks að taka þátt í þessu með okkur og láta þetta ekki pirra sig. Við verðum bara að klára þetta.“

Leitað handvirkt á öllum farþegum á minni flugvöllum

Sigrún segir að fólk á vegum Isavia muni framkvæma vopnaleitina.

„Við erum með vopnaleitarbúnað á Akureyri, Egilsstöðum og á Reykjavíkurflugvelli. Á öðrum minni áætlanarflugvöllum þar sem er alla jafna ekki vopnaleit viðhöfð, þá erum við að framkvæma handleit,“ segir Sigrún.

Leitað verður á öllum farþegum sem ætla til eða frá Reykjavík og má ætla að það taki sinn tíma.

Sigrún mælir með að fólk gefi sér um það bil klukkutíma í vopnaleitina og mæti þess vegna klukkustund fyrr en venjulega í flug.

Í Reykjavík verða líka töluverðar umferðatakmarkanir vegna fundarins og er því óvitlaust að taka það með í reikninginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert