Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Harald Svein Gunnarsson, meirihlutaeiganda bílaleigunnar Procar, í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Haraldur hafði í liðinni viku játað skýlaust brot sín um að hafa falsað mælastöðu á vel á annað hundrað bíla áður en þeir fóru í endursölu.
Dómur héraðsdóms féll nú eftir hádegi, en Rúv greindi fyrst frá.
Héraðssaksóknari fór fram á 1-2 ára skilorðsbundinn dóm að hluta eða öllu leyti en Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfesti í samtali við mbl.is að 12 mánaða skilorðsbundinn dómur hefði verið niðurstaðan.
Í ákærunni kom fram að í það heila hefði verið farið fram á um 15 milljónir króna í skaðabætur. Héraðssaksóknari féll hins vegar frá bótum í málinu þar sem eigandi hafði þegar samið við 122 af þeim 134 einstaklingum sem málið náði til.